Körfubolti

Fannar Ólafsson: Við heyrðum inn á völlinn að ÍR væri búið að vinna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fannar er vanur því að lyfta bikurum.
Fannar er vanur því að lyfta bikurum. Mynd/Anton

Fannar Ólafsson, fyrirliði KR, tók við deildarmeistaratitlinum annað árið í röð eftir 90-86 sigur á Snæfelli í Stykkishólmi í kvöld.

„Þetta var mjög sterkur sigur hjá okkur. Við mætum hérna á erfiðasta útivöll landsins og móti besta varnarliði landsins og höfum sigur á móti fullmönnuðu liði þeirra. Við vorum mjög ákveðnir í því að leiðrétta ákveðin mistök sem við gerðum í síðasta leik. Við ætluðum að klára titilinn á heimavelli og vorum mjög svekktir að hafa ekki gert það," sagði Fannar.

„Þessi sigur er einn af þeim sætari sem ég hef unnið í deildinni og þá sérstaklega í vetur þegar sex lið eru svona ofboðslega jöfn," sagði Fannar og bætti við:

„Ég er hrikalega sáttur því þetta hjálpar liðinu. Það er mikið sjálfstraust í liðinu og við komum fullir sjálfstraust inn í 8 liða úrslitin. Við heyrðum inn á völlinn að ÍR-ingarnir væru búnir að vinna en það kom aldrei til greina að fara að gefa einhvern leik hérna. Við vildum enda þetta á jákvæðum nótunum," sagði Fannar sem býst við spennandi leikjum á móti ÍR í átta liða úrslitunum.

„ÍR er með mjög gott lið og þessi nýi kani fellur greinilega vel inn í þetta hjá þeim. Það er ekki auðvelt að vinna Grindavík þannig að við gerum ráð fyrir hörkuleikjum á móti þeim," sagði Fannar að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×