Þorsteinn Pálsson: Háeffun starfsmannalaganna Þorsteinn Pálsson skrifar 10. apríl 2010 08:11 Þótt á ýmsu hafi gengið er enn í fersku minni flestra þegar landsmenn vöknuðu til og sofnuðu frá fréttum um kaup, sölu og samruna fyrirtækja. Þegar einn hópur viðskiptajöfra hafði keypt af öðrum varð jafnan trúnaðarbrestur með þeim afleiðingum að helstu stjórnendur voru reknir um leið og nýir eigendur gengu um ganga í fyrsta sinn. Í fyrstu hrukku landsmenn við þegar slíkar fréttir voru sagðar. Skjótt fóru þær þó inn um annað eyrað og út um hitt. Í hlutafélögum ræður huglægt mat eiganda hvort trúnaður ríkir milli hans og stjórnanda. Meira þarf ekki til en stjórnandi hafi verið ráðhollur fyrri eiganda til þess að trúnaður bresti gagnvart þeim nýja. Kaldrifjað; en þannig gerast kaupin á eyrinni. Þessu er á annan veg farið í ríkisstofnunum. Skyldur forstöðumanna þeirra eru nákvæmlega skilgreindar í lögum. Það þýðir að trúnaður á milli ráðherra og forstöðumanns ríkisstofnunar ræðst ekki af huglægu mati ráðherra. Hann getur aðeins brostið ef forstöðumaður víkur frá þeim efnislegu kröfum sem skýrt er mælt fyrir um í lögum. Hér er um eðlismun að ræða. Heilbrigðisráðherra hefur nú ákveðið að áminna forstjóra Sjúkratrygginga vegna trúnaðarbrests. Sá trúnaðarbrestur er ekki skýrður með tilvísun í brot gegn tilteknum ákvæðum starfsmannalaga eða fyrirmæla í erindisbréfi. Trúnaðarbresturinn virðist af því sem fram hefur komið alfarið byggjast á huglægu mati ráðherrans. Með öðrum orðum: Heilbrigðisráðherra hefur brugðið á loft sama kvarða til að mæla trúnað og viðskiptajöfrarnir notuðu fyrir hrun. Vandi ráðherrans er hins vegar sá að það siðferði sem þá gilti í hlutafélögum rímar ekki í einu og öllu við lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og er auk þess andstætt tíðarandanum eins og hann er nú orðinn; guði sé lof. Skyldur ríkisforstjóra Í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna segir: „Forstöðumaður ber ábyrgð á að stofnun, sem hann stýrir, starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf." Þetta þýðir að það er forstöðumaðurinn en ekki ráðherrann sem ábyrgðina ber. Það er forstöðumaðurinn sem sýna þarf aðgæslu til að tryggja rétta framkvæmd laga. Lögum samkvæmt getur hann ekki skýlt sér á bak við mat ráðherra. Ríkisendurskoðun er eftirlitsstofnun Alþingis, óháð ráðherravaldi. Hún hefur aðgang að gögnum ríkisstofnana til að staðreyna greiðsluskyldu ríkissjóðs í einstökum tilvikum. Vandvirkur forstöðumaður leitar til Ríkisendurskoðunar ef minnsta álitaefni gefur tilefni til. Það heitir að byrgja brunninn. Einnig má kalla þetta góða stjórnsýslu. Ber forstjóra að snúa sér til ráðherra áður en hann leitar aðstoðar sjálfstæðs eftirlits Alþingis? Það getur átt við þegar mál eru á undirbúningsstigi í ráðuneyti. Eftir að ráðherra hefur opinberlega birt reglur eða stjórnvaldsfyrirmæli gildir þetta sjónarmið ekki þar sem ábyrgðin hefur þá eftir lögunum færst frá ráðherranum til forstjórans. Það er hins vegar ekkert sem bannar slíkt samráð. Helst hlýtur það þó að koma til álita ef forstöðumaður vill tefja framkvæmdina með skriffinnsku. Ábyrgð hans er eftir sem áður sjálfstæð að lögum. Í þessu sambandi verður forstöðumaðurinn að hafa hugfast að á endanum er það mat Ríkisendurskoðunar en ekki ráðherra sem ræður umfangi greiðsluskyldu sé lagatúlkunar þörf. Hún er eftirlitsstofnun Alþingis. Þaðan eru heimildir forstöðumannsins til að greiða fé úr ríkissjóði komnar. Fyrir hvað má áminna? Í tveimur ákvæðum laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eru talin þau tilvik sem ráðherra getur notað til áminningar. Þau eru: 1)Útgjöld fara fram úr fjárlagaheimildum. - Á augljóslega ekki við. 2) Verkefnum stofnunar er ekki sinnt eða þjónusta hennar telst óviðunandi. - Á augljóslega ekki við. 3) Starfsmaður hefur sýnt óstundvísi eða aðra vanrækslu í starfi. - Á augljóslega ekki við. 4) Óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns. - Á augljóslega ekki við. 5) Vankunnátta eða óvandvirkni í starfi. - Á augljóslega ekki við. 6) Starfsmaður hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi. - Á augljóslega ekki við. 7) Starfsmaður hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu. - Á augljóslega ekki við. Eftir stendur að heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að áminna forstjóra ríkisstofnunar fyrir samviskusemi og trúnað við fjárveitingavald Alþingis. Samstarf forstjóra ríkisstofnana við Ríkisendurskoðun leiðir stundum í ljós óþarfar áhyggjur en kemur í annan tíma í veg fyrir slys. Fari samstarfið ekki fram verða fleiri slys. Forsætisráðherra hefur oft brugðið skildi fyrir góða siði. Nú bergmálar þögn hans og nokkurra annarra svo í háum sölum Alþingis að athygli vekur um víðan völl. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun Misskilin mannúð í hælisleitendamálum Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir Skoðun Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun 11 ástæður fyrir því að kjósa Pírata Baldur Karl Magnússon Skoðun Ætla Íslendingar að standa vörð um orkuauðlindir sínar? Ágústa Ágústsdóttir Skoðun Hvert er fóðrið til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi? Jú, villuráfandi stefnulaus ungmenni! Davíð Bergmann Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Varnarveggur gegn vonbrigðum Sanna Magdalena Mörtudóttir Skoðun
Þótt á ýmsu hafi gengið er enn í fersku minni flestra þegar landsmenn vöknuðu til og sofnuðu frá fréttum um kaup, sölu og samruna fyrirtækja. Þegar einn hópur viðskiptajöfra hafði keypt af öðrum varð jafnan trúnaðarbrestur með þeim afleiðingum að helstu stjórnendur voru reknir um leið og nýir eigendur gengu um ganga í fyrsta sinn. Í fyrstu hrukku landsmenn við þegar slíkar fréttir voru sagðar. Skjótt fóru þær þó inn um annað eyrað og út um hitt. Í hlutafélögum ræður huglægt mat eiganda hvort trúnaður ríkir milli hans og stjórnanda. Meira þarf ekki til en stjórnandi hafi verið ráðhollur fyrri eiganda til þess að trúnaður bresti gagnvart þeim nýja. Kaldrifjað; en þannig gerast kaupin á eyrinni. Þessu er á annan veg farið í ríkisstofnunum. Skyldur forstöðumanna þeirra eru nákvæmlega skilgreindar í lögum. Það þýðir að trúnaður á milli ráðherra og forstöðumanns ríkisstofnunar ræðst ekki af huglægu mati ráðherra. Hann getur aðeins brostið ef forstöðumaður víkur frá þeim efnislegu kröfum sem skýrt er mælt fyrir um í lögum. Hér er um eðlismun að ræða. Heilbrigðisráðherra hefur nú ákveðið að áminna forstjóra Sjúkratrygginga vegna trúnaðarbrests. Sá trúnaðarbrestur er ekki skýrður með tilvísun í brot gegn tilteknum ákvæðum starfsmannalaga eða fyrirmæla í erindisbréfi. Trúnaðarbresturinn virðist af því sem fram hefur komið alfarið byggjast á huglægu mati ráðherrans. Með öðrum orðum: Heilbrigðisráðherra hefur brugðið á loft sama kvarða til að mæla trúnað og viðskiptajöfrarnir notuðu fyrir hrun. Vandi ráðherrans er hins vegar sá að það siðferði sem þá gilti í hlutafélögum rímar ekki í einu og öllu við lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og er auk þess andstætt tíðarandanum eins og hann er nú orðinn; guði sé lof. Skyldur ríkisforstjóra Í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna segir: „Forstöðumaður ber ábyrgð á að stofnun, sem hann stýrir, starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf." Þetta þýðir að það er forstöðumaðurinn en ekki ráðherrann sem ábyrgðina ber. Það er forstöðumaðurinn sem sýna þarf aðgæslu til að tryggja rétta framkvæmd laga. Lögum samkvæmt getur hann ekki skýlt sér á bak við mat ráðherra. Ríkisendurskoðun er eftirlitsstofnun Alþingis, óháð ráðherravaldi. Hún hefur aðgang að gögnum ríkisstofnana til að staðreyna greiðsluskyldu ríkissjóðs í einstökum tilvikum. Vandvirkur forstöðumaður leitar til Ríkisendurskoðunar ef minnsta álitaefni gefur tilefni til. Það heitir að byrgja brunninn. Einnig má kalla þetta góða stjórnsýslu. Ber forstjóra að snúa sér til ráðherra áður en hann leitar aðstoðar sjálfstæðs eftirlits Alþingis? Það getur átt við þegar mál eru á undirbúningsstigi í ráðuneyti. Eftir að ráðherra hefur opinberlega birt reglur eða stjórnvaldsfyrirmæli gildir þetta sjónarmið ekki þar sem ábyrgðin hefur þá eftir lögunum færst frá ráðherranum til forstjórans. Það er hins vegar ekkert sem bannar slíkt samráð. Helst hlýtur það þó að koma til álita ef forstöðumaður vill tefja framkvæmdina með skriffinnsku. Ábyrgð hans er eftir sem áður sjálfstæð að lögum. Í þessu sambandi verður forstöðumaðurinn að hafa hugfast að á endanum er það mat Ríkisendurskoðunar en ekki ráðherra sem ræður umfangi greiðsluskyldu sé lagatúlkunar þörf. Hún er eftirlitsstofnun Alþingis. Þaðan eru heimildir forstöðumannsins til að greiða fé úr ríkissjóði komnar. Fyrir hvað má áminna? Í tveimur ákvæðum laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eru talin þau tilvik sem ráðherra getur notað til áminningar. Þau eru: 1)Útgjöld fara fram úr fjárlagaheimildum. - Á augljóslega ekki við. 2) Verkefnum stofnunar er ekki sinnt eða þjónusta hennar telst óviðunandi. - Á augljóslega ekki við. 3) Starfsmaður hefur sýnt óstundvísi eða aðra vanrækslu í starfi. - Á augljóslega ekki við. 4) Óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns. - Á augljóslega ekki við. 5) Vankunnátta eða óvandvirkni í starfi. - Á augljóslega ekki við. 6) Starfsmaður hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi. - Á augljóslega ekki við. 7) Starfsmaður hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu. - Á augljóslega ekki við. Eftir stendur að heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að áminna forstjóra ríkisstofnunar fyrir samviskusemi og trúnað við fjárveitingavald Alþingis. Samstarf forstjóra ríkisstofnana við Ríkisendurskoðun leiðir stundum í ljós óþarfar áhyggjur en kemur í annan tíma í veg fyrir slys. Fari samstarfið ekki fram verða fleiri slys. Forsætisráðherra hefur oft brugðið skildi fyrir góða siði. Nú bergmálar þögn hans og nokkurra annarra svo í háum sölum Alþingis að athygli vekur um víðan völl.
Hvert er fóðrið til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi? Jú, villuráfandi stefnulaus ungmenni! Davíð Bergmann Skoðun
Hvert er fóðrið til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi? Jú, villuráfandi stefnulaus ungmenni! Davíð Bergmann Skoðun