Viðskipti erlent

Endurskipulagningu lokið hjá French Connection

Endurskipulagningu tískuverslunarkeðjunnar French Connection er ný lokið en keðjan hefur selt vörumerkið Nicole Farhi og lokað flest öllum verslunum sínum í Bandaríkjunum.

Þrotabú Baugs heldur á tæplega 18% hlut í French Connection í gegnum félagið Unity Investments sem Baugur átti í félagi við Kevin Stanford.

Í frétt um málið á Reuters segir að samkvæmt ársuppgjöri síðasta árs, sem lauk 31. janúar s.l. nam tapið af rekstri French Connection 24,9 milljónum punda eftir skatta. Til samanburðar nam tapið árið áður 16,4 milljónum punda.

Ljósi punkturinn í ársuppgjörinu er að sá rekstur sem French Connection heldur áfram eftir endurskipulagninguna skilaði hagnaði upp á 1,3 milljónir punda í fyrra. Fyrir utan verslanir í Bandaríkjunum hefur keðjan verið að losa sig við verslanir í Japan og Evrópu á síðasta ári.

Hlutir í French Connection hafa fallið um 23% í verði á undanförnum sex mánuðum. Verðmatið á keðjunni nemur 40 milljónum punda. Verðmæti hluta þrotabús Baugs er þannig 7,2 milljónir punda eða tæplega 1,4 milljarðar kr.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×