Katrín Atladóttir, forritari hjá CCP, mætir í brúðkaup á nýársdag í sínum eigin brúðarkjól. Hún spurði þó brúðgumann um leyfi.
„Vinur minn er að fara að gifta sig og ég spurði sérstaklega hvort honum væri ekki sama þótt ég mætti í brúðarkjólnum mínum. Það var allt í lagi, enda er kjóllinn ekki beint hefðbundinn brúðarkjóll. Ég hlakka mikið til að nota hann aftur," segir Katrín en hún gifti sig sjálf í sumar. Hún féll fyrir kjólnum um leið og hún sá hann.
„Þetta er Vivienne Westwood kjóll sem ég keypti mér í Kronkron. Þetta er eini kjóllinn sem ég mátaði, ég gekk bara inn í verslunina og sá hann strax, mátaði og borgaði og þar með var brúðarkjólamálið afgreitt. Ég keypti skóna líka í KronKron, en reyndar ekki í sömu ferð."
Katrín segist hafa gaman af því að klæða sig upp þegar rétta tilefnið gefst. Hversdags klæði hún sig í þægilegar flíkur.
„Ég er svona "casual chic" með smá hiphop yfirbragði. Nánast öll fötin mín eru frá Nikita en þau eru falleg og þægileg og hægt að gera þau bæði fín og hversdagsleg með mismunandi samsetningum."
heida@frettabladid.is