Lífið

Beinir sviðsljósinu að London

Einar Ingi Jóhannesson flytur til London.
Einar Ingi Jóhannesson flytur til London.
„Þetta býður upp á marga möguleika, bæði að túra með hljómsveitum og að vinna í stórum leikhúsum,“ segir Einar Ingi Jóhannesson sem er á leiðinni til London í haust til að læra ljósahönnun fyrir leikhús.

Hann er einn af fremstu ljósamönnum landsins og hefur verið duglegur að beina sviðsljósinu að íslenskum og erlendum tónlistarmönnum í gegnum árin, m.a. á Iceland Airwaves-hátíðinni. Núna vill hann víkka sjóndeildarhring sinn.

„Ég er búinn að vinna mjög lengi í þessum bransa og hef alltaf ætlað að fara út. Mér hefur ekki gefist færi til þess fyrr en núna,“ segir Einar Ingi, sem er 27 ára.

Námið heitir Theater Lightning Design og fer fram í hinum virta skóla Central School Of Speach and Drama. Um þriggja ára BA-nám er að ræða og kostar það skildinginn, eða um þrjár milljónir á ári.

„Þetta er alveg rándýrt og þetta er ekki ódýrasti staðurinn til að búa á heldur en ég fæ eitthvað upp í skólagjöldin á námslánunum,“ segir Einar og bætir við: „Maður væri ekki að gera þetta nema maður ætli að gera þetta af alvöru. Það þýðir ekkert að fara út til að klúðra þessu.“

Einar segir að ljósamennska sé það skemmtilegasta sem hann geri. „Þú færð útrás fyrir að vera svolítið skapandi,“ segir hann um starfið. „Það er líka gaman að geta hjálpað góðum böndum í að koma sínu til skila. Það er eins með leikhúsin, að hjálpa til að koma skilaboðunum til skila. Eins og á tónleikum þá er ómetanlegt að slökkva húsljósin og þá tryllist allt. Þetta er ákveðið adrenalínkikk líka og sumir í þessu eru stjórnunar-“frík“,“ segir hann en gefur ekkert upp hvort hann sé í þeirra röðum eður ei.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.