Lífið

Ragnhildur fékk námsstyrk í Los Angeles

Ragnhildur heldur til Los Angeles um miðjan mánuðinn til að hefja nám í kvikmyndagerð.fréttablaðið/stefán
Ragnhildur heldur til Los Angeles um miðjan mánuðinn til að hefja nám í kvikmyndagerð.fréttablaðið/stefán
„Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið styrkinn því annars hefði ég ekki möguleika á að fara í námið. Löngunin í framhaldsnám hefur blundað í mér lengi og með þessum styrk verður þetta að veruleika,“ segir Ragnhildur Magnúsdóttir, kvikmyndagerðarkona.

Ragnhildur flytur til Bandaríkjana um miðjan mánuðinn til að fara í nám í kvikmyndagerð í New York Film Academy í Los Angeles. Ragnhildur notaði myndina sína From Oakland til Iceland sem umsókn og hlaut styrk frá skólanum sem gerir henni fært að láta drauminn rætast.

„Kvikmyndabakterían hefur í raun bara ágerst eftir að ég gerði myndina mína. Ég hef unnið báðu megin við myndavélina en mér finnst kvikmyndagerðin sjálf mjög skemmtileg. Þetta nám sem ég fer í inniheldur einnig fjármögnun og handritakrufningu svo eitthvað sé nefnt,“ segir Ragnhildur.

Námið sem Ragnhildur fer í er um eitt ár, með möguleika á að bæta við sig aukaári. Sambýlismaður hennar, rithöfundurinn Mikael Torfason, fer með Ragnhildi út og ætlar hann að fara í nám í ensku. „Við verðum allavega úti á meðan við klárum námið en það fer allt eftir því hvað kemur sér best fyrir fjölskylduna hvað við gerum svo.“

Los Angeles er á heimaslóðum Ragnhildar þar sem hún bjó í Kaliforníu helming ævi sinnar. „Ég var í gagnfræðaskóla í Suður-Kaliforníu og útskrifaðist úr stjórnmálafræði frá San Fransisco. Ég uppgötvaði þegar ég fór að undirbúa þessa flutninga að ég á ennþá slatta af vinum þarna frá þeim tíma. Auk þess sem fjölskyldan mín býr í Kaliforníu. Þannig að ég á marga góða að þarna og með þeirra hjálp er allt skipulag að verða komið á hreint,“ segir Ragnhildur spennt fyrir því sem koma skal.

- ls





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.