Innlent

Einbýlishúsið tekið af Jóhannesi í Bónus

Hafsteinn Hauksson skrifar

Skilanefnd Landsbankans hefur leyst til sín einbýlishús Jóhannesar í Bónus á Norðurlandi. Kröfur bankans námu 280 milljónum króna í upphafi, en fasteignamat hússins er tæpum tvöhundruð milljónum lægra .

Þann 10. desember síðastliðinn skipti glæsihýsið Hrafnabjörg í Svalbarðshreppi um eigendur. Húsið er nú skráð á eignarhaldsfélagið Mynni ehf., en félagið er að fullu í eigu gamla Landsbankans.

Áður var húsið í eigu Gaums, en það er eignarhaldsfélag Baugsfeðga. Jóhannes Jónsson í Bónus bjó í húsinu, en samkvæmt þjóðskrá hefur hann nú fært lögheimili sitt í Fagraþing í Kópavogi.

Hrafnabjörg voru sett til tryggingar kröfum sem námu tæpum 280 milljónum króna þegar þær urðu til árin 2006 og 7, en það eru um 380 milljónir á verðlagi dagsins í dag. Landsbankinn á Akureyri og í Reykjavík átti fyrsta og annan veðrétt á húsinu til tryggingar þessara krafna, en samkvæmt heimildum fréttastofu höfðu lánin verið í vanskilum í nokkurn tíma.

Hrafnabjörg voru byggð árið 2005, en húsið er alls meira en 420 fermetrar að stærð ásamt viðbyggingum. Samkvæmt fasteignaskrá er fasteignamat hússins rúm 91 milljón króna, tæpum 200 milljónum lægra en upphaflegt virði krafna bankans, en brunabótamatið um 325 milljónir. Húsið fer í venjubundna sölumeðferð innan bankans.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×