Körfubolti

Umfjöllun: Snæfell sótti bæði stigin í Ásgarð

Elvar Geir Magnússon skrifar
Ingi Steinþórsson, þjálfari Snæfells.
Ingi Steinþórsson, þjálfari Snæfells.

Snæfell og Stjarnan hafa bæði 20 stig í Iceland Express deildinni eftir sigur fyrrnefnda liðsins í Garðabæ í kvöld, 87-93. Leikurinn var jafn og spennandi eins og reiknað var með og úrslitin réðust ekki fyrr en í blálokin.

Stjörnumenn voru betri í blábyrjun leiksins og náðu fljótlega ágætri forystu.  Snæfellingar fundu betri takt í leik sinn hægt og rólega en voru tveimur stigum undir eftir fyrsta leikhluta 23-21. Jón Ólafur Jónsson var veikur og sást það greinilega á spilamennsku hans.

Þeir komust yfir í fyrsta sinn þegar rúm mínúta var eftir af öðrum leikhluta og fóru til búningsherbergja með þriggja stiga forystu, staðan 43-46 í hálfleik.

Hart var barist í þriðja leikhlutanum og liðin skiptust á að hafa forystuna. Heimamenn leiddu með sjö stigum fyrir lokafjórðunginn. Á lokasprettinum reyndust Snæfellingar  hinsvegar sterkari og tilraunir Stjörnunnar til að jafna í lokin gengu ekki. 

Úrslitin réðust þegar Sean Burton setti bæði vítaskot sín niður þegar sex sekúndur voru eftir. Spennan var mikil en gestirnir glöddust mikið þegar leiktíminn rann út. Vel var mætt í Ásgarð og stemningin prýðileg.

Lykilmenn Snæfells stóðu allir fyrir sínu í kvöld og hafði það mikið að segja. Þá var einnig gaman að sjá Emil Þór Jóhannsson sem steig upp og átti skínandi góðan leik. Stjörnuliðið var hinsvegar ekki að ná eins vel saman og oftast í vetur.

Stjarnan - Snæfell 87-93

Stigahæstir hjá Stjörnunni: Justin Shouse 22, Jovan Zdravevski 20, Kjartan Kjartansson 13, Fannar Helgason 12.

Stigahæstir hjá Snæfelli: Sean Burton 22, Emil Þór Jóhannsson 21, Hlynur Bæringsson 19, Sigurður Þorvaldsson 18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×