Lífið

Hollywood-brjálæði í Simpsons

Russell Brand.
Russell Brand.

22. þáttaröð Simpsons-fjölskyldunnar hefst í september. Eins og endranær verður Hollywood ekki langt undan, en sjaldan hafa jafn margir gestaleikarar verið staðfestir áður en þáttaröðin hefst.

Fjölmargar stjörnur hafa þegar tekið boðinu um að tala inn á næstu þáttaröðina um Simpsons-fjölskylduna. Engan skal undra, þættirnir eru á meðal þeirra farsælustu sem sýndir hafa verið í sjónvarpi. Þáttaröðin sem hefst í september er sú 22. í röðinni og fátt bendir til þess að síðasti þátturinn fari í loftið í bráð.

Hannigan.

How I Met Your Mother-stjarnan Alyson Hannigan leikur dóttur forfallakennara í þættinum Flaming Moe. Skinner skólastjóri gengur á eftir forfallakennaranum með grasið í skónum og reynir að koma dóttur hans og Bart saman.

Ekki rugla nafni þáttarins saman við þáttinn Flaming Moe's. Enda gera Moe og Smithers tilraun til að breyta bar þess fyrrnefnda í hommabar í nýrri þættinum.

Bret og Jermaine.
Fyrsti þátturinn verður sýndur 26. september í Bandaríkjunum, en ólíkar stjörnur leiða þá saman hesta sína. Nokkrir krakkar úr spútnikþættinum Glee tala inn á fyrir krakka í sérstökum sköpunarsumarbúðum sem Lísa er send í.

Leiðbeinendurnir í sumarbúðunum eru engir aðrir en Bret McKenzie og Jermaine Clement sem allir ættu að þekkja úr þáttunum Flight of the Conchords. Ef þú, lesandi góður, hefur ekki horft á þættina ættirðu að drífa í því. Þeir eru frábærir.

Berry.

Forstjóri Facebook-samskiptafyrirbærisins, Mark Zuckerberg, les inn á einn þátt, Halle Berry afhendir Homer verðlaun, Paul Rudd les inn fyrir sálfræðing sem reynir að hjálpa Hómer að verða betri faðir og Ricky Gervais snýr aftur og tekur þátt.

Martha Stewart kemur fram í jólaþættinum, og Joe Hamm leikur fulltrúa FBI í þætti þar sem Homer lendir enn á ný í slagtogi við mafíósann Fat Tony.

Simpsons-fjölskyldan.
Þá munu Russell Brand, Jonah Hill, Rachel Weisz og Cheech & Chong öll koma fram í þáttaröðinni, sem verður augljóslega þétt skipuð.

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.