Innlent

Ríkisendurskoðun óskar upplýsinga um meðferðarheimili

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir segir mikilvægt að Ríkisendurskoðun fari ofan í saumana á málefnum meðferðarheimila.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir segir mikilvægt að Ríkisendurskoðun fari ofan í saumana á málefnum meðferðarheimila.
Ríkisendurskoðun er byrjuð að rannsaka málefni meðferðarheimila fyrir börn eftir að Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að samið hefði verið við aðstandendur meðferðarheimilisins Árbótar um bætur vegna lokunar heimilisins. Þetta staðfesti Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi, í samtali við Vísi.

Sveinn segir að embættið hafi skrifað bréf til félagsmálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins til að óska eftir gögnum um samninga sem hafi verið gerðir vegna starfsemi meðferðarheimila. Samningurinn sem fjármálaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið gerðu við eigendur Árbótar var gerður í óþökk Barnaverndastofu og var töluvert til umræðu í síðustu viku.

Félagsmálanefnd Alþingis fjallaði um málefni meðferðarheimilanna í morgun. Á fundinn mættu fulltrúar félagsmálaráðuneytisins, rekstraraðilar meðferðarheimilisins Árbótar og Götusmiðjunnar sem rekin var með samningi við Barnaverndarstofu. Nefndin mun svo hitta fulltrúa Barnaverndastofu síðar.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður félagsmálanefndar, segir að það sé mjög mikilvægt að Ríkisendurskoðun fari ofan í saumana á hvernig samningum við meðferðarheimili og lyktir þeirra hafi verið háttað. Undir það tekur Unnur Brá Konráðsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni. „Þetta var ágætis fundur og upplýsandi," segir Unnur Brá um fund félagsmálanefndar í morgun. Hún segist þó telja að könnun Ríkisendurskoðunar mætti vera víðtækari en lagt er upp með.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×