Körfubolti

Ingi Þór: Við vorum mjög góðir

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, var að vonum kampakátur eftir sigurinn á KR í DHL-höllinni í gær.

„Við vorum mjög góðir. Það voru tvö góð lið að spila hér í kvöld en við vorum bara betri," sagði Ingi Þór.

„Finnur Atli átti mjög góðan leik fyrir þá en við náðum að halda öðrum í skefjum og við ætlum að halda því áfram. Við vorum mjög góðir hérna í kvöld, því er ekki að neita. Ég átti reyndar ekki von á svona stórum sigri," sagði Ingi en hans lið leikur af geysilega sjálfstrausti þessa dagana.

„Við höfum verið að skoða okkur sjálfa svolítið mikið upp á síðkastið. Ég er fyrst og fremst ánægður með það sem við erum að gera. Við erum að fá svakalegur tölur frá Martins og Pálma og Palla. Sveinn kom líka frábær af bekknum. Það var meiri stemning hjá okkur og þessi sigur gefur okkur mikið sjálfstraust. Við erum mjög góðir í körfubolta."

Ingi Þór var að leika á heimavelli í kvöld enda er hann fyrrum þjálfari KR og mikill KR-ingur. Hann var til að mynda aðstoðarþjálfari liðsins á síðustu leiktíð er það varð meistari. Var það ekkert skrítið fyrir hann að stýra liði gegn KR?

„Það var svolítið skrítið fyrir leik að koma hérna og vera í liði andstæðinganna. Svo þegar leikurinn byrjar þá hverfur sú tilfinning. Ég er bara í vinnunni og að vinna með frábæru fólki. Mér finnst gaman í vinnunni og þegar staðan er þannig gengur venjulega vel."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×