Lífið

Bekkpressukeppni í bíó

Allir kjötuðustu menn Íslands mæta á The Expendables í Laugarásbíói að sögn Egils.
Allir kjötuðustu menn Íslands mæta á The Expendables í Laugarásbíói að sögn Egils.
„Allir kjötuðustu menn á Íslandi munu mæta á þessa sýningu. Það er ekki eitt vöðvafjall sem verður heima hjá sér á föstudaginn,“ segir Egill „Þykki“ Einarsson. „Þetta verður testósterón-sýning.“

Hasarmyndin The Expendables, sem skartar jöxlum á borð við Sylvester Stallone, Bruce Willis, Jet Li, Mickey Rourke og Jason Statham, verður forsýnd í Laugarásbíói á föstudaginn. Bekkpressubekkur verður í anddyrinu og þeir sem lyfta 100 kílógrömmum fá ókeypis á myndina. Kraftajötuninn Hjalti „Úrsus“ Árnason verður dómari og uppákoman er í boði Fitnesssport og Gillz.is.

„Ég vil helst að það verði enginn maður í salnum sem taki undir 100 kíló í bekk. Ef einhver reynir við 100 kílóin og drullar á sig á að senda hann heim strax, því það er enginn leikari í myndinni sem tekur undir 100 kg í bekk,“ segir Egill. Hann útilokar ekki að spreyta sig sjálfur á bekknum í tilefni dagsins. „Ég kannski pumpa þetta 20 til 25 sinnum til að sýna litlu kjúklingunum hvernig á að gera þetta,“ segir hann og bætir við: „Eina vandamálið við þessa sýningu þar sem öll steratröll á landinu mæta er að þarna situr maður með kjötaðan mann báðum megin við sig. Menn þurfa að harka það af sér og menn munu líka reka við af öllu prótíninu og það verður ekki góð lykt.“

Þykki er að vonum spenntur fyrir myndinni, enda er hann meðlimur í íslenskum aðdáendaklúbbi Stallones. „Við erum að tala um mestu harðhausamynd sem gerð hefur verið og líklega er þetta besta mynd sem búin hefur verið til. Ég er búinn að bíða eftir henni eins og lítið barn í þrjá mánuði og tel niður mínúturnar,“ segir hann og hvetur íslenska harðhausa til að mæta klukkutíma fyrir sýninguna, sem hefst klukkan 18. - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.