Íslenski boltinn

Systir Margrétar Láru skorar á hana að spila með ÍBV næsta sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir í leik með ÍIBV á móti Val í bikarúrslitaleiknum 2004.
Margrét Lára Viðarsdóttir í leik með ÍIBV á móti Val í bikarúrslitaleiknum 2004.
ÍBV tryggði sér sæti í Pespi-deild kvenna á miðvikudaginn og sigur í 1. deild kvenna í gær með 3-1 sigri á Þrótti í úrslitaleik. Fyrirliði liðsins er Elísa Viðarsdóttir, yngri systir landsliðsframherjans Margrétar Láru Viðarsdóttur.

Elísa Viðarsdóttir var í viðtali við netmiðilinn fótbolta.net eftir leikinn og þar var hún spurð út í systur sína sem nú spilar með sænska liðinu Kristianstad.

„Það er klárt mál að ég mun hringja í hana og við gerum einhvern góðan samning. Margrét ég skora á þig að koma í ÍBV á næsta ári," sagði Elísa við Fótbolta.net eftir leikinn en myndband með viðtalinu má sjá hér.

Margrét Lára hefur ekki spilað með ÍBV síðan sumarið 2004 þegar hún skoraði 23 mörk í 14 leikjum og varð markadrottning deildarinnar. Margrét Lára er fimm árum eldri en Elísa og náðu þær því ekki að spila saman áður en Margrét skipti yfir í Val fyrir sumarið 2005.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×