Fastir pennar

Sjálfbært atvinnuleysi

Pawel Bartoszek skrifar
Mér er sagt að það hafi tekið mörg ár að venja Íslendinga af því að spara. Fátækt fólk fær ekki lán, það þarf að spara. En svo spöruðu menn enn, af gömlum vana, löngu eftir að það hætti að vera rökrétt.



Málshátturinn "Græddur er geymdur eyrir“ bergmálaði í hugum fólks á tímum taumlausrar verðbólgu. Verðbólgan át upp námslán og húsnæðislán einnar kynslóðar og sparifé annarrar. Geymdur eyrir eins varð græddur eyrir annars.

Á endanum tókst að troða nýjum málshætti í heila fólks, málshætti sem byggði á reynslu: "Lán er mikið lán."



Það tók tíma að fá fólk til að hætta að spara. Nú er uppi stórfellt átak í því að venja fólk af því að vinna. Það gengur raunar hægt.



Margir vilja enn vinna af gömlum vana þrátt fyrir að margt gáfulegra megi gera við tímann fyrir litlu minni pening. Íslendingar eru, þrátt fyrir allt, undarlega atvinnuglöð þjóð. En dropinn holar steininn.



Atvinnuleysisbætur eru enn tekjutengdar í nokkurn tíma eftir atvinnumissi. Það tímabil sem menn geta þegið bætur hefur verið lengt.



Sveitarfélög kappkosta við að gera líf atvinnulausra viðburðameira með því að gefa þeim frítt í sund og lokka þá inn á bókasöfn.



Það var skiljanlegt að fyrstu mánuði eftir bankahrunið hafi menn verið að gera allt sem hægt var til að dempa mestu höggin, og hindra það að götur fylltust af fólki, raðauglýsingar fylltust af íbúðaruppboðum, meðan íbúðirnar sjálfar stæðu auðar. Auðvitað var það að einhverju leyti skynsamlegt. En allur þunginn nú ætti að vera á það að koma atvinnulífinu í gang, frekar en á það að breiða úr öryggisnetinu og gera lendinguna í því mýkri og þægilegri.



Tryggingargjald hefur verið marghækkað, meðal annars til að standa straum af stórauknum kostnaði vegna atvinnuleysisbóta. Hið opinbera má hugsanlega veita fólki einhverja lágmarkstryggingu, en eru tekjutengdar atvinnuleysisbætur ekki einfaldlega góðærismunaður? Eigum við nokkuð efni á slíku lengur? Fólk mætti hafa val um viðbótartekjutryggingu í sjálfstæðum sjóðum en hið opinbera á ekki að veita fólki slíka tryggingu og rukka það um hana. Það á ekki að hella meiru eldsneyti í opinbera atvinnubótakerfið. Það er ekki endilega víst að sú vél sé hagkvæmust á fullum snúningum.



Raunverulegir fjárhagslegir hvatar til að fá vinnu, eða hefja eigin rekstur þurfa að vera meiri. Þess í stað eru flest stjórnvöld föst í kjarajöfnunar- og tekjutengingaráráttu sem hefur öfug áhrif. Ég hef til dæmis heyrt að í borgarstjórn Reykjavíkur séu margir spenntir fyrir aukinni tekjutengingu gjaldskráa. Það eru vondar hugmyndir. Eins og fram kom í nýlegri grein minni hér í Fréttablaðinu þá skilar einstaklingur með tekjur á bilinu 100-250 þúsund á mánuði næstum því 90 af þeim 100 krónum sem hann þénar aukalega aftur inn í kerfið. Muni sveitarfélög ákveða að til dæmis að tekjutengja leikskólagjöld um 10% þá er allur ávinningur láglaunafólks af því að bæta við sig vinnu farinn.



Prósenturnar eru nefnilega bara 100, sama hvernig menn reikna. Og ef allar prósenturnar hundrað eru notaðar í þágu kjarajöfnunar þá verður ekkert eftir. Það er ekki gott.



Samspil bóta, skatta og tekjutengingar gerir það til dæmis að verkum að munur á fjölskyldutekjum hjóna þar sem annað vinnur en hitt þiggur bætur hins vegar og hjóna þar sem bæði vinna á lágum eða miðlungslaunum hins vegar er lítill. Menn þurfa að skila átta tímum, fimm daga vikunnar, koma sér til og frá vinnustað til að hækka í ráðstöfunartekjum um örfáa tugi þúsunda. Enda finnst mér sem margir þeirra sem leita sér að vinnu í kringum mann rökstyðji það með því að þeir vilji "hafa eitthvað að gera“ frekar en að þeir vilji "hafa eitthvað að borða“.



Sé allrar sanngirni gætt þá eru öll skrif um réttlátari, eða árangurstengdari, skiptingu kökunnar innantómt þvaður, sé kakan engin.



Og vissulega er minna um atvinnu nú um stundir en oft áður. En sú stefna að hækka sífellt launatengd gjöld í því skyni að fjármagna tekjutengdar bætur og langtímaatvinnuleysi er ekki sú kökugerð sem líklegust er til árangurs.






×