Innlent

"Atorka, ráðdeild, framsýni og þollyndi"

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra við Austurvöll í dag. Þarna má einnig sjá Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, og séra Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra við Austurvöll í dag. Þarna má einnig sjá Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, og séra Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.
Forsætisráðherra sagði íslenskt samfélag hafa styrkst að flestu leyti frá stofnun lýðveldisins og það væri fyrirmynd annarra þjóða á fjölmörgum sviðum, í hátíðarræðu sinni á Austurvelli í morgun.

„Atorka, ráðdeild, framsýni og þollyndi voru orðin sem Jón Sigurðsson valdi til hvatningar íslenskri þjóð á öndverðri nítjándu öld.

Þessi hvatningarorð eiga ekki síður erindi við okkur í dag og við skulum heiðra minningu þessa baráttumanns með því að hafa þau að leiðarljósi," sagði Jóhanna.

Hún sagði Íslendinga nú hafa tækifæri í kjölfar efnahagsáfallsins til þess að byggja upp réttlátara þjóðfélag, þar sem virðing fyrir öllum hópum og stéttum er í öndvegi, þar sem öllum eru sköpuð jöfn tækifæri til þess að láta til sín taka á mismunandi sviðum allt eftir kostum, eiginleikum og hugðarefnum hvers og eins.

Þetta áhugasama fólk fylgdist með ræðuhöldunum
Hún stappaði Íslendinga í stálinu og hvatti þá til að líta bjartsýnir til framtíðar.

Hún rifjaði upp að Jón Sigurðsson var áhugasamur um nýja stjórnarskrá.

„Hann sat stjórnlagaþing Dana veturinn 1848-1849 þar sem danska stjórnarskráin var samin, en hún var talin ein sú framsæknasta í Evrópu á þeim tíma. Og sem þjóðkjörinn fulltrúi sat Jón þjóðfundinn fræga í Lærða-skólanum 1851 þar sem til stóð að semja fyrstu stjórnarskrána fyrir Ísland.

Það var almennt viðurkennt við lýðveldisstofnun að því verkefni að móta varanlega stjórnskipan væri ólokið. Það er í raun merkilegt að nú fyrst, 160 árum eftir að þjóðfundinum var slitið, skuli hilla undir fyrstu alíslensku stjórnarskrána á vettvangi Stjórnlagaráðs. Fyrst nú hafa handhafar valdsins stigið það skref að fela óháðum fulltrúum þjóðarinnar að móta nýjar leikreglur fyrir íslenskt samfélag, án afskipta stjórnmálaflokka, framkvæmdarvalds eða löggjafarvalds."



Ræða Jóhönnu í heild sinni.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×