Innlent

Ganga frá Hall­gríms­kirkju og spila hljóð frá sprengju­regni

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Frá mótmælum samtakanna í mars.
Frá mótmælum samtakanna í mars. Vísir/Einar

Félagið Ísland-Palestína hefur boðað til mótmælagöngu klukkan 14 á morgun, þar sem gengið verður með barnavagna frá Hallgrímskirkju að Austurvelli. Í kerrunum verða myndir af börnum sem hafa verið drepin á Gasa, og spiluð verða hljóð frá sprengjuregni á Gasa.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu Ísland-Palestína.

„Palestínumenn hafa kallað eftir aðgerðum um allan heim laugardaginn 3. ágúst til að vekja athygli ða yfirstandandi þjóðarmorði, sem er nú á 10. mánuði. Á Gaza hafa síðan í október nær 15.000 börn verið myrt, 20.000 til viðbótar eru týnd og dag hvern missa 10 börn útlim. Á Vesturbakkanum hafa nær 150 börn verið drepin á sama tímabili,“ segir í tilkynningu samtakanna.

Palestínumenn mótmæla við Alþingi.Vísir/Einar

Því hafi verið boðað til táknrænnar göngu með barnavagna. Í kerrunum verða myndir af börnum sem hafa verið myrt ásamt nöfnum þeirra og aldri.

Gengið verður í þögn, en í nokkrum kerrum verða hátalarar með hljóðum frá sprengjuregni á Gaza. Göngunni verður lokið fyrir utan Alþingishúsið á Austurvelli þar sem kerrunum verður stillt upp í röð og þær látnar standa.

Viðburðinn má finna á Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×