Innlent

Segir RÚV njóta óréttláts forskots

Uppfæra þarf núverandi dreifikerfi RÚV eigi það að geta dreift stafrænum útsendingum eins og stefnt er á að gera frá og með 2013.
Uppfæra þarf núverandi dreifikerfi RÚV eigi það að geta dreift stafrænum útsendingum eins og stefnt er á að gera frá og með 2013. Mynd/GVA
Ari Edwald, forstjóri 365, segir samkeppnisstöðu einkareknu sjónvarpsstöðvanna skakka á meðan Ríkissjónvarpinu er dreift frítt um dreifikerfi Símans og Vodafone.

„Auðvitað ætti RÚV að eiga aðild að þessum dreifikerfum og taka þátt í þessum kostnaði. Það gefur augaleið að það er erfitt fyrir einkareknu sjónvarpsfyrirtækin að við séum að greiða hundruð milljóna króna á ári fyrir dreifingu á sjónvarpsmerkjum en þau kjósi að hafa RÚV þar sem farþega frítt. Ég held að það geti ekki verið fyrirkomulag til framtíðar,“ segir Ari Edwald.

RÚV hefur hingað til notað eigið dreifikerfi, samhliða aðgangi að dreifikerfum Símans og Vodafone, til að dreifa sjónvarpsútsendingum sínum. Í lok næsta árs verður hliðrænum sjónvarpsútsendingum hins vegar alfarið hætt, gangi áætlanir eftir. Í kjölfarið mun RÚV annað hvort þurfa að uppfæra eigið dreifikerfi með tilheyrandi kostnaði eða þá reiða sig alfarið á dreifikerfi Símans og Vodafone. Kristján Benediktsson, starfsmaður við dreifikerfi RÚV, sagði enn ekki ákveðið hvernig þeim málum yrði háttað í samtali við Fréttablaðið í gær.

Ari telur mikilvægt að þessi skekkja í samkeppnisumhverfi sjónvarpsstöðvanna verði leiðrétt þegar umbreytingin verður. „Þetta einfaldlega vegur að samkeppnisgrundvellinum í atvinnugreininni,“ segir Ari.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×