Innlent

Neitar e-töflusmygli

Junierey var gripinn í Leifsstöð með e-töflur og LSD í fórum sínum.
Junierey var gripinn í Leifsstöð með e-töflur og LSD í fórum sínum. Mynd/Haraldur
Ákæra var þingfest í gær á hendur ungum manni sem gefið er að sök að hafa flutt gríðarlegt magn af fíkniefnum til landsins í mars síðastliðnum. Hann neitar sök.

Maðurinn, Junierey Kenn Pardillo Suarez, er 23 ára og búsettur á Íslandi. Hann var handtekinn við komuna til landsins frá Las Palmas á Spáni 23. mars síðastliðinn eftir að fíkniefnin fundust í farangri hans.

Það sem fannst var ekkert smáræði: 36.604 e-töflur og 4.471 skammtur af ofskynjunarlyfinu LSD. Honum er gefið að sök að hafa ætlað að selja efnin hér á landi.

Ákæran var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness síðdegis í gær. Junierey Kenn var færður fyrir dómarann af lögreglumönnum, enda hefur hann setið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn. Ákæruatriðin voru borin undir Junierey og kvaðst hann alsaklaus af þeim.

Verði hann fundinn sekur um smyglið á hann margra ára fangelsisdóm yfir höfði sér. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×