Innlent

Leggur til enn hærri skatta

Sjóðurinn hrósar stjórnvöldum fyrir góðan árangur af skattahækkunum en leggur til breytingar.
Sjóðurinn hrósar stjórnvöldum fyrir góðan árangur af skattahækkunum en leggur til breytingar. Mynd/nordicphotos/AFP
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir, í nýrri skýrslu um skattkerfið á Íslandi, nauðsynlegt að hækka hér skatta og gera margvíslegar breytingar á skattkerfinu.

Til dæmis þurfi að einfalda virðisaukaskattskerfið, þannig að undantekningum verði fækkað og bilið milli skattþrepa minnkað eða afnumið alveg, meðal annars með því að lækka efra virðisaukaskattsþrepið. Þá leggja höfundar skýrslunnar til aukna eða nýja skatta á náttúruauðlindir, eldsneyti, raforku og flugferðir auk þess sem setja þurfi skýra umgjörð utan um nýtingu náttúrauðlinda með einkavæðingu og auðlindagjald í huga.

Hins vegar telja þeir að fjármagnstekjuskattur eigi smám saman að víkja fyrir eignaskatti, enda geti margir fjármagnseigendur komist hjá skattgreiðslum einfaldlega með því að fara úr landi.

Annars hrósar sjóðurinn íslenskum stjórnvöldum fyrir að hafa náð góðum árangri með skattahækkunum til að minnka fjárlagahallann. Áhersla á aðhald í ríkisfjármálum frá því snemma árs 2009 hafi aukið skatttekjur á öllum sviðum.

„Til framtíðar ætti að færa áhersluna á að nota skattkerfið til að stuðla að hagkvæmni og örva hagvöxt,“ bæta höfundar skýrslunnar þó við. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×