Innlent

700 óeirðaseggir þegar ákærðir í London

Lögregla hefur gripið til þess ráðs að birta myndir af meintum spellvirkum og vonast til að fá hjálp frá almenningi við að hafa uppi á þeim.
Lögregla hefur gripið til þess ráðs að birta myndir af meintum spellvirkum og vonast til að fá hjálp frá almenningi við að hafa uppi á þeim. NordicPhotos/AFP
Lögregla í stærstu borgum Bretlands hafði mikinn viðbúnað á götum úti í gær vegna möguleika á að ólætin sem geisuðu í upphafi vikunnar gætu hafist á ný.

Um 700 manns hafa þegar verið ákærðir fyrir meinta glæpi eftir fjögurra daga upplausnarástand þar sem fimm létust og tugir meiddust í einhverjum alvarlegustu róstum seinni ára í Bretlandi.

Hundruð búða voru rændar, hús voru brennd og heilu hverfin voru marauð á meðan lögregla var að ná tökum á ástandinu. Loks fór að hægjast um þegar fjöldi lögreglumanna á götum London var þrefaldaður á þriðjudag og alls hafa nú 1.700 verið handteknir um land allt og margra er leitað. Meðal annars hafa verið birtar myndir af spellvirkjum og er vonast eftir ábendingum frá almennum borgurum.

Forsætisráðherrann David Cameron viðurkenndi að lögreglan réði ekki við ástandið í fyrstu. „Við vorum með allt of fáa lögreglumenn á götunum og við beittum ekki réttum aðferðum."

Vandamálið er þó djúpstæðara en svo að hægt sé að vinna á því í einni svipan og hafa yfirvöld meðal annars leitað til Bandaríkjamannsins Williams Bratton eftir ráðgjöf. Bratton var lögreglustjóri í New York, Los Angeles og Boston og þótti ná miklum árangri í að vinna gegn upplausnarástandi líkt og því sem ríkt hefur í Bretlandi síðustu viku.

Í dag er rétt vika liðin frá því að ólætin hófust. Ástandið hefur verið með rólegra móti frá því á miðvikudag.

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×