Handbolti

Sigurður Ragnar hjálpar Frömurum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Landsliðsþjálfarinn í fótbolta er marghamur.
Landsliðsþjálfarinn í fótbolta er marghamur. vísir/stefán
Einar Jónsson, þjálfari Fram, segir að hann hafi notið liðsinnis Sigurðar Ragnar Eyjólfssonar, landsliðsþjálfara í knattspyrnu, í svokallaðri hugarþjálfun leikmanna Fram.

Framarar eigast í dag við Valsmenn í úrslitum Eimskipsbikarkeppni kvenna en Einar segir að hugarfar leikmanna muni ráða miklu í leiknum í dag.

„Liðin þekkja hvort annað mjög vel og eru bæði vel skipulögð og kunna handbolta út í gegn. Þetta mun því snúast um hugarfarið og hvernig leikmenn mæta stemmdir í leikinn. Það lið sem er betur búið í þá barátta mun vinna leikinn," sagði Einar í samtali við Vísi en leikurinn hefst klukkan 13.30 í dag.

Fram hafði betur gegn Val í bikarúrslitunum í fyrra. „Við gerðum þetta með mjög skipulögðum og öflugum hætti í fyrra og gerum þetta með svipuðum hætti nú. Hugarþjálfun er jafn mikilvæg og að þjálfa varnarleikinn eða leikkerfi í sókninni. Þetta er orðinn mjög stór þáttur í íþróttum í dag."

„Við höfum fengið aðstoð frá Sigurði Ragnari meðal annarra en hann er mjög vel að sér í þessum málum. Hann hefur reynst okkur mjög vel."

Valsmenn hafa þó oftar haft betur gegn Fram í leikjum liðanna að undanförnu og eru nú handhafar allra titlanna fyrir utan bikarinn.

Einar hefur oft átt erfitt með að hemja skapið eftir rimmur þessara liða og var til að mynda dæmdur í þriggja leikja bann eftir úrslitakeppnina í fyrra.

„Skapið getur bæði verið kostur og galli. Menn leggja miklar tilfinningar í þetta, bæði hjarta og sál. Auðvitað getur maður verið tapsár enda erfitt að tapa. Ég held nú yfirleitt haus í leikjunum sjálfum en svo getur maður misst sig eftir þá. Þetta brýst svona út hjá mér og öðruvísi hjá öðrum."

„En kannski hefur maður þroskast með aldrinum og það gæti hjálpað til," sagði Einar og brosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×