Handbolti

Í mínus út af félagaskiptagjaldinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Bretarnir í liði Mosfellinga hafa ekki verið þyngdar sinnar virði í gulli. Hér má sjá Mark Hawkins, annan þeirra.
Bretarnir í liði Mosfellinga hafa ekki verið þyngdar sinnar virði í gulli. Hér má sjá Mark Hawkins, annan þeirra. Mynd/Anton
Fréttablaðið greindi í gær frá fáránlega háu félagaskiptagjaldi í handboltanum. Það kostar nefnilega frá 170 þúsund upp í 440 þúsund að fá erlendan handboltamann til landsins.

Gjaldið í handboltanum er mun hærra en í körfubolta og og fótbolta. Í körfuboltanum kostar 100 þúsund krónur að erlendan leikmann til landsins en í fótbolta aðeins 2.000 krónur.

Þetta háa gjald hefur orðið til þess að aðeins þrír erlendir leikmenn spila í N1-deild karla í dag. Þar af eru tveir Bretar sem spila með Aftureldingu en það hefur reynst Mosfellingum þungur baggi að fá leikmennina til félagsins.

„Við þurftum að greiða 450 þúsund fyrir annan og 170 þúsund fyrir hinn. Við verðum reyndar að viðurkenna að við vissum ekki af því að verðið væri svona rosalega hátt. Það var aftur á móti ósk þjálfarans að fá þessa menn til liðsins og þeir voru komnir. Það var því ekki rétt af okkur að senda þá aftur heim fyrst þeir voru komnir," sagði Ingimundur Helgason, varaformaður handknattleiksdeildar Aftureldingar.

Mosfellingar fengu einnig Davíð Svansson og þar sem hann var að koma að utan kostaði það annan 440 þúsund kall að fá hann í liðið.

Handknattleiksdeildin neyddist til þess að leita á náðir aðalstjórnar með fjárhagsstyrk vegna verkefnisins. Sú ákvörðun að fá Bretana og Davíð hefur þar af leiðandi komið illa við Mosfellinga.

„Þessi rúma milljón sem hefur farið í þessi félagaskiptagjöld er mínusinn okkar í dag. Reksturinn er þess utan á núllinu hjá okkur. Þetta er alveg fáránlegt verð og nánast mannréttindabrot að menn geti ekki ferðast á milli félaga án þess að það kosti fúlgur fjár. Þetta sýnir hvað handboltinn er vanþróaður," sagði Ingimundur svekktur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×