Innlent

Tólf prósent nauðgunarmála árið 2008 enduðu með dómi

Boði Logason skrifar
Í nýrri skýrslu embættis ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að rannsókn lögreglu var hætt eða vísað frá í 63 prósent tilvika um nauðgun árið 2008. Í 25 prósent tilvika voru brotin felld niður hjá ríkissaksóknara en í 12 prósent þeirra féll dómur.

Í öðrum kynferðisbrotum en nauðgunum og misneytingum var rannsókn hætt eða máli vísað frá hjá lögreglu í 35 prósentum tilvika og fellt niður hjá ríkissaksóknara í 23 prósentum tilvika. Dómur féll í 41 prósenti tilvika, sem er hærra hlutfall en í nauðgunar- og misneytingarmálum. Ef litið er til allra kynferðisbrota má sjá að í 39 prósentum tilvika var rannsókn hætt eða máli vísað frá hjá lögreglu en í 35 prósentum féll dómur.

„Í flestum nauðgunarmálum, eða 40 prósentum þeirra, er ástæða þess að lögregla hættir rannsókn eða vísar máli frá sú að máli er ekki fylgt eftir af brotaþola eða brotaþoli dregur kæru til baka. Þegar brotaþoli ákveður að fylgja máli ekki eftir vill hann yfirleitt ekki gefa skýrslu, bera vitni eða taka þátt í rannsókn málsins. Þó svo að lögregla og ákæruvald hafi heimild til að halda rannsókn áfram, óháð því hvort mál er kært eða ekki, eru sannanir í þessum tilvikum oftast það takmarkaðar að ekki eru taldar líkur á því að það skili nokkru þótt rannsókn málsins sé haldið áfram,“ segir í skýrslunni ennfremur.

Þá segir jafnframt að hafa ber í huga að brotin áttu sér ekki endilega stað árið 2008 þótt þau hafi verið tilkynnt til lögreglu það ár. Vinnsla þeirra gat auk þess átt sér stað síðar þannig að sum málanna komu til ákvörðunar ríkissaksóknara árið 2009.

Hægt er að lesa skýrsluna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×