Handbolti

Valur hefur unnið sjö af ellefu leikjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Valur og Fram hafa mæst ellefu sinnum á síðustu tveimur tímabilum og hafa Valsmenn sjö sinnum borið sigur úr býtum.

Liðin leika því í dag sinn tólfta leik síðan um haustið 2009 þegar að þau eigast við í úrslitum Eimskipsbikarkeppni kvenna klukkan 13.30.

Þau hafa þrívegis mæst á núverandi tímabili og hefur Valur ávallt borið sigur úr býtum. Valur vann í Meistarakeppni HSÍ sem og í úrslitum deildarbikarsins en báðir leikir voru mjög spennandi.

Valur vann svo sjö marka sigur, 23-16, þegar þau mættust í N1-deildinni í síðasta mánuði en þá voru nokkrir lykilleikmenn Fram meiddir sem verða með í dag. Fram var að vísu yfir í hálfleik, 13-11, en skoraði aðeins þrjú mörk í seinni hálfleik og tapaði honum með tólf marka mun.

Á síðasta tímabili mættust liðin átta sinnum. Fjórum leikjunum lauk með sigri Vals en Fram vann þrjá. Einum lyktaði með jafntefli.

Þrír af þessum fjórum sigrum Vals komu í úrslitaeinvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor sem Valur vann, 3-1.

Fram vann aftur á móti bikarúrslitaleik liðanna en liðin voru hnífjöfn í deildakeppninni; hvort liðið vann sinn leik og þau skildu svo jöfn í þeim þriðja.

Valur er því núverandi Íslandsmeistari, deildarmeistari, deildarbikarmeistari sem og meistari meistaranna. Fram er enn bikarmeistari en það gæti breyst í dag - vinni Valur verður liðið handhafi allra titlanna samtímis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×