Handbolti

Stefán: Höfum gert litlu hlutina betur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stefán Arnarsson, þjálfari Vals, segir að það séu litlu atriðin sem skipta oft miklu máli þegar rimmur Fram og Vals eru gerðar upp.

Fram og Valur eigast í dag við í úrslitum Eimskipsbikar kvenna en þessi sömu lið hafa barist um nánast alla titla sem í boði að undanförnu. Yfirleitt hefur Valur haft betur en Fram vann þó bikarinn í fyrra.

„Það sem hefur kannski gert útslagið fyrir okkur er að við höfum verið að gera þessa litlu atriði betur," sagði Stefán í samtali við við Vísi en leikurinn hefst klukkan 13.30 í dag.

„Við höfum unnið vel í þeim sem skiptir oft miklu þegar uppi er staðið. Annars þekkjast þessi lið mjög vel og eru jöfn að getu. Nánast allir leikir þeirra hafa verið spennandi og ég tel að liðið sem verður betur undirbúið andlega vinni leikinn í dag."

„Reyndar hafa leikirnir okkar gegn Fram alltaf þróast mjög undarlega. Fram hefur yfirleitt byrjað betur, komist 4-5 mörkum yfir og leitt í hálfleik. Þá hefur Íris [Björk Símonardóttir, markvörður Fram] varið um 20 skot. En svo í seinni hálfleik höfum við náð að klára leikinn á seiglunni."

Valur tapaði þó bikarúrslitaleiknum í fyrra eins og áður segir en Stefán telur að reynsluleysi sinna leikmanna af úrslitaleikjum hafi haft mikið að segja þá.

„Mér fannst liðið vera yfirspennt og við spiluðum ekki nógu vel. Við höfum verið að vinna í þeim hlutum að undanförnu og lærðum mikið af þessum leik."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×