Innlent

Saka Halldór um árásir og andúð í garð kennara

Grunnskólakennarar segja óþolandi og óviðeigandi að formaður Sambands sveitarfélaga blandi sér í kjaraviðræður
Grunnskólakennarar segja óþolandi og óviðeigandi að formaður Sambands sveitarfélaga blandi sér í kjaraviðræður Mynd úr safni / Anton Brink
„Ekki verður annað séð en að inngrip formanns Sambands sveitarfélaga sé eingöngu ætlað að skapa andúð almennings á störfum kennara. Með því er verið að reyna að réttlæta áframhaldandi niðurskurð sveitarfélaga í skólamálum," segir í yfirlýsingu sem Félag grunnskólakennara hefur sent frá sér.

Tilefnið er að Halldór Halldórsson, formaður Sambands sveitarfélaga, hefur tjáð sig í fjölmiðlum efnislega um atriði er lúta að kjarasamningum Félags grunnskólakennara og samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Halldór hefur talað fyrir því að kennsluhlutfall kennara verði aukið en það er nú 34,7 prósent, sem er langt undir meðaltali annarra OECD ríkja.

„Það er með öllu óþolandi og óviðeigandi að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga skuli blanda sér inn í kjaraviðræðurnar á þennan hátt. Fyrir árið 2007 voru samskipti sveitarfélaga og grunnskólakennara með erfiðasta móti og ekki ríkti traust og trúnaður á milli aðila sem er ein af forsendum þess að hægt sé að ræða viðkvæm mál og leita leiða til lausna á deilumálum. Í síðustu kjaraviðræðum árið 2008 voru aðilar einhuga um að breyta aðferðafræði sinni í kjaraviðræðum og náðust samningar í kjölfarið í mikilli sátt," segir í yfirlýsingunni.

Þá kemur þar fram: „Félag grunnskólakennara óskar eftir því að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga láti samninganefnd sína eina annast viðræður við Félag grunnskólakennara og láti af árásum á kennara og störf þeirra. Ljóst er að kennarar hafa á undanförnum árum unnið þrekvirki við að halda skólastarfi í landinu gangandi þrátt fyrir mikið viðvarandi álag og verulegan niðurskurð í rekstri grunnskólanna."

Samninganefnd FG mun ekki elta ólar við fullyrðingar formannsins á síðustu dögum „enda eru kjaraviðræður í gangi milli aðila. Á þeim vettvangi fer fram efnisleg umræða, en ekki á síðum blaða, í bloggskrifum eða í ljósvakamiðlum," segja grunnskólakennarar.




Tengdar fréttir

Nýta tæp 35% af tíma sínum í kennslu

Kennarar á Íslandi nýta einungis um 34,7% af vinnutíma sínum í kennslu sem er langt undir meðaltali annarra OECD ríkja. Hægt væri að lækka rekstrarkostnað umtalsvert með því að hækka kennsluhlutfall kennara að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×