Handbolti

Róbert sér ekki eftir því að hafa farið til Löwen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Róbert á bekknum í leik með Löwen en þjálfari liðsins er Guðmundur Guðmundsson.
Róbert á bekknum í leik með Löwen en þjálfari liðsins er Guðmundur Guðmundsson. Nordic Photos / Bongarts
Róbert Gunnarsson hefur ekki fengið að spila jafn mikið með Rhein-Neckar Löwen á leiktíðinni í þýsku úrvalsdeildinni eins og hann vonaðist til.

Róbert kom til félagsins í sumar frá Gummersbach þar sem hann var fyrirliði. Hann þarf hins vegar að berjast um byrjunarliðssætið við Norðmanninn Bjarte Myrhol sem er af flestum talinn meðal bestu línumanna heimsins í dag.

Þjálfari Rhein-Neckar Löwen er Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands.

„Ég er mjög sáttur við að hafa tekið þetta skref," sagði Róbert í samtali við Vísi. „Það eru ýmsar ástæður fyrir því en það sem öllu skiptir að ég er sáttur."

„Auðvitað vil ég spila meira og ætla ég ekki að leyna því. Mín hlutskipti eru eins og þau eru en þetta getur verið fljótt að breyttast. Því þarf maður að vera á tánum og tilbúinn þegar kallið kemur."

„Ég er með virkilega góðan kollega í minni stöðu sem hefur átt mjög gott tímabil. Ég skil vel að það er ekki þörf á því að breyta neinu ef hann er að skila sínu. Ég bara tek því og er það ekkert mál. Þetta er bara vinna og ég fæ alveg jafn mikið borgað fyrir að vera inn á og á bekknum," sagði Róbert í léttum kaldhæðnistón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×