Innlent

Aukning á notkun stefnuljósa

Mikil aukning varð á notkun stefnuljósa á Korputorgi milli þess sem Umferðarstofa gerði þar kannanir á notkuninni. Engin breyting varð hins vegar á notkun ökumanna við Ánanaust.

Notkun stefnuljósa hefur verið könnuð af Umferðarstofu í tvígang, á mánaðartímabili, við tvö hringtorg í Reykjavík.  Um er að ræða torg við Ánanaust annars vegar og við Korputorg hins vegar. Milli þessara kannana hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu á sömu stöðum fylgst með stefnuljósanotkun og hefur mikill fjöldi ökumanna verið stöðvaður og fengið sekt.  

 

Í seinni könnuninni sem Umferðarstofa framkvæmdi kom í ljós að talsverð aukning varð á notkun stefnuljósa í Korputorgi milli kannana, eða úr 37% í 48%.

Hinsvegar varð ekki breyting við Ánanaust, en þar gáfu 67% ökumanna stefnuljós þegar þeir óku út úr torginu í báðum könnunum. 

Mikill munur var á notkun stefnuljósa eftir akstursleiðum og áberandi var að þeir sem óku út á fyrstu gatnamótum sáu ekki ástæðu til að gefa öðrum til kynna hvert þeir ætluðu.

 

Þessi niðurstaða er athyglisverð með hliðsjón af því að um 66,5% ökumanna sem tóku þátt í viðhorfskönnun Umferðarstofu fyrir skömmu, töldu vanhöld á notkun stefnuljósa vera eitt af þeim atriðum sem færi mest í taugarnar á sér í umferðinni.

 

Ökumenn eru hvattir til að nota stefnuljósin og mun lögregla fylgjast með sem áður og gera athugasemdir ef út af er brugðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×