Fastir pennar

Að fara eða vera?

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
 

Forsvarsmenn stórra fyrirtækja í alþjóðlegum rekstri eru ekki ánægðir með rekstrarumhverfið sem þeim er boðið upp á hér á landi. Í síðasta helgarblaði Fréttablaðsins gagnrýndi Niels Jacobsen, stjórnarformaður Össurar, hringlandahátt og flumbrugang stjórnvalda harðlega, en daginn sem viðtalið var tekið ákvað aðalfundur Össurar að afskrá félagið úr Kauphöll Íslands.

"Það er erfitt að reka fyrirtæki í landinu þegar lögum og reglum er breytt. Sumar er erfitt að fá nokkurn botn í en aðrar eru afturvirkar. Það er erfitt að reka fyrirtæki með afturvirkum lögum," segir Jacobsen. Á meðal þess sem hann hefur út á að setja er hringl með reglur um yfirtökuskyldu, gjaldeyrishöft og kynjakvóti í stjórnum. Um íslenzku krónuna segir hann: "Við getum ekki verið skráð á hlutabréfamarkað sem notar gjaldmiðil sem er ekki nothæfur."

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri tölvuleikjafyrirtækisins CCP, tók í svipaðan streng í fréttum Stöðvar 2 á laugardagskvöld og sagði stefnuleysi stjórnvalda stórt vandamál fyrir atvinnurekstur í landinu. "Í gjaldeyrismálum finnst mér stefnan bara ekki liggja fyrir ... Það er vissulega verið að sækja um í Evrópusambandinu og ef það verður reyndin er það eitthvað sem hægt er að reiða sig á," sagði Hilmar.

Það er ástæða til að hlusta á talsmenn þessara fyrirtækja. Afskráning Össurar úr kauphöllinni er áfall fyrir hlutabréfamarkaðinn hér á landi og sömuleiðis fyrir orðspor landsins í alþjóðlegu viðskiptalífi - ekki sízt þegar stjórnarformaðurinn talar eins og hann gerir. Niels Jacobsen er þekktur í viðskiptalífi Danmerkur og víðar og eftir orðum hans er tekið.

Það er reyndar erfitt að vorkenna stjórnendum Össurar að þurfa að finna aðra konu til viðbótar þeirri einu, sem situr í fimm manna stjórn fyrirtækisins, en aðra gagnrýni Jacobsens hljóta stjórnvöld að taka til sín. Eftir það áfall sem íslenzkt efnahagslíf varð fyrir við bankahrunið ættu stjórnvöld að kappkosta að bjóða fyrirtækjum upp á sem stöðugast viðskiptaumhverfi, í stað þess að hringla til og frá með skatta, gjöld og reglur.

Gjaldmiðilsmálin eru svo sérkapítuli. Öllum er ljóst að krónan getur ekki orðið framtíðargjaldmiðill Íslands. Um það eru stjórnendur fyrirtækja og almenningur í landinu sammála. Umsóknin um aðild að ESB ætti að vera sterk yfirlýsing um að hér sé stefnt að upptöku evru og þeim aga í hagstjórn sem henni fylgir, en vegna þess að ríkisstjórnin er sjálfri sér sundurþykk í Evrópumálunum er sú yfirlýsing mun veikari en ella og fyrirtækin telja áfram að óvissa ríki um framtíðina.

Fyrirtæki í alþjóðlegum rekstri, sem eiga þess kost að fara annað til að útvega sér fjármagn, grípa tækifærið. Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, sagðist í fréttum Stöðvar 2 á laugardaginn vorkenna þeim sem eftir sætu og rækju fyrirtæki við þessar aðstæður. Þeir eiga ekki kost á alþjóðlegu fjármagni á alþjóðlegum kjörum.

Sú spurning hlýtur að vakna hvað upprennandi fyrirtæki -næsti Össur eða næsta CCP - sem eiga möguleika á að verða umsvifamikil á alþjóðavettvangi, gera til að tryggja sér stöðugleika og fjármögnun. Ákveða þau að fara eða vera?

 






×