Innlent

Rannsóknarheimildir verða rýmkaðar

Ögmundur Jónasson á blaðamannafundi í dag.
Ögmundur Jónasson á blaðamannafundi í dag.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra mun á næstunni leggja fram frumvarp sem auðveldar lögreglunni að eiga við glæpahópa sem skotið hafa rótum hér á landi. Rannsóknarheimildir lögreglu verða rýmkaðar en Ögmundur leggur áherslu á að slíkt verði aðeins gert að viðhöfðu ströngu eftirliti og að fengnum dómsúrskurði.

Þetta er á meðal þess sem fram kom í máli ráðherrans á blaðamannafundi sem nú stendur yfir. Ögmundur segir vísbendingar um að alvarlega skipulögð glæpastarfsemi sé að færast í vöxt hérlendis og nefndi hann eiturlyfjasölu, mansal, peningaþvætti, fjársvik, ofbeldisverk, og vopnasmygl í því samhengi. „Við höfum vísbendingar um það að glæpahópar berjast um afraksturinn af þessari starfsemi," segir Ögmundur og segir að því þurfi að efla getu samfélagsins til að takast á við vandamálið.

Ögmundur sagði einnig að engar "patent" lausnir gætu upprætt þennan vanda. „Það verður ekki gert í einu vetfangi, en forsenda er að við stöndum saman og sameinuð sem samfélag.“

Þá gat Ögmundur þess að lögregla ætli sér nú að fara í tímabundið átak sérstaklega til þess að stemma stigu við þeirri þróun sem virðist eiga sér stað í undirheimunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×