Innlent

Toppfundur um Bakka-álver í New York

Æðstu ráðamenn Alcoa og Landsvirkjunar hittast í New York í næstu viku til að kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að ganga til samningaviðræðna um álver við Húsavík.

Slétt fimm ár eru frá því Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi iðnaðarráðherra, mætti í höfuðstöðvar Alcoa í New York til að setja formlega af stað undirbúningsvinnu vegna álvers við Húsavík, sem bæjarbúar fögnuðu svo samdægurs á veitingastaðnum Gamla Bauki, sem frægt varð.

Iðnaðarlóðin á Bakka er enn óröskuð og efasemdir um að þar rísi álver hafa verið vaxandi, sérstaklega eftir að núverandi ríkisstjórn hafnaði að framlengja viljayfirlýsingu við Alcoa í fyrra. Tveir af æðstu ráðamönnum Alcoa lýstu því hins vegar yfir á fundum með iðnaðarráðherra og forstjóra Landsvirkjunar í Reykjavík í síðasta mánuði að þeir hefðu enn fullan hug á því að reisa álver fyrir norðan.

Þeir lýstu sig jafnframt reiðubúna að skoða smíði minna álvers til að laga sig að þeirri orku sem býðst í Þingeyjarsýslum en með sameiginlegu mati álvers og virkjana, sem birt var í nóvember, skýrðust þeir kostir.

Þar með liggja fyrir allar forsendur til að taka um það ákvörðun hvort Alcoa og Landsvirkjun hefji formlegar samningaviðræður eða segi þessari tilraun lokið. Óvíst er hvort svo afgerandi niðurstaða fæst í næstu viku en þá mun sendinefnd Landsvirkjunar, með Hörð Arnarson forstjóra í fararbroddi, hitta æðstu ráðamenn Alcoa í New York, í sömu húsakynnum og Valgerður setti Bakka-ferlið af stað fyrir fimm árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×