Körfubolti

Fannar: Verða einn til tveir með blóðnasir

Elvar Geir Magnússon skrifar
Fannar Ólafsson, leikmaður KR, var hæstánægður eftir sigur KR á Njarðvík í kvöld. Vesturbæjarliðið er því komið í forystu í einvíginu og getur klárað dæmið í Njarðvík á sunnudag. Fannar veit vel að það er bara hálfur sigur unninn.

Marcus Walker fór á kostum með KR í kvöld og skoraði 33 stig. Fannar segir að umfjöllun fjölmiðla hafi átt sinn þátt í að Walker var í gírnum.

„Hann var búinn að heyra þær raddir að þessi (Giordan) Watson væri að fara að taka hann í nefið. Að hann væri besti Kani á landinu og svona. Marcus tók það mjög nærri sér og hann sagði það fyrir leik að hann ætlaði sér að stoppa hann. Hann gerði það mjög vel í fyrri hálfleik og átti svo mjög góðan leik í seinni hálfleik," sagði Fannar við Vísi eftir leik.

„Við förum að hlaupa yfir þá í þriðja leikhluta og það klárar leikinn að mínu mati. Við erum að spila á tíu mönnum sem eru að setja stig og það munar miklu að hafa svona marga og geta hvílt á milli. Mér fannst þeir vera orðnir hræddir."

„Við þekkjum það vel að er bara hálfur sigur unninn. Nú förum við á mjög erfiðan útivöll, örugglega þann erfiðasta á landinu fyrir utan DHL-höllina. Við búumst við baráttu upp á líf og dauða þar og það verða örugglega einn til tveir með blóðnasir," sagði Fannar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×