Innlent

Vill Baldur í tveggja ára fangelsi

Erla Hlynsdóttir skrifar
Baldur Guðlaugsson er sakaður um innherjasvik og brot í opinberu starfi.
Baldur Guðlaugsson er sakaður um innherjasvik og brot í opinberu starfi.
Sérstakur saksóknari fer fram á tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi yfir Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu. Hámarksrefsing við innherjasvik er hins vegar sex ár. Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, lauk málflutningi sínum fyrir stundu.

Í máli sínu benti hann á misræmi á milli framburðar Bolla Bollasonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu, og framburðar Baldurs. Bolli stýrði samráðshópi um fjármálastöðugleika sem Baldur átti sæti í. Baldur bar fyrir dómi að hann hafi ráðfært sig við Bolla, fyrir söluna á hlutabréfunum, um hvort rétt væri að selja þau. Bolli bar hins vegar í dómssal að Baldur hafi ekki rætt við hann um hlutabréfasöluna fyrr en að henni lokinni.

Sagði Bolli ennfremur að hann hefði ráðlagt Baldri frá því að selja bréfin, hefði hann vitað af ætlun Baldurs áður en salan átti sér stað. Þá sagðist Bolli hafa litið á sjálfan sig sem innherja og því ekki selt eigin hlutabréf í íslensku viðskiptabönkunum á þessum tíma.

Með hliðsjón af þessu segir Björn ljóst að Baldur hafi framið brot sín „af ásetningi og gegn betri vitund".

Björn telur engan vafa leika á því að Baldur hafi sýnt „einbeittan brotavilja" þegar hann seldi öll hlutabréf sín í Landsbankanum fyrir 192 milljónir króna í september 2008. Að mati Björns er þvílíkur fjöldi af gögnum sem liggur fyrir í málinu og og styrkir málflutning ákæruvaldsins að þeim megi einna helst líka við „veisluborð" fyrir þann sem ákæruna ritaði. Vísaði hann þar meðal annars til fundargerða samráðshópsins.


Tengdar fréttir

Halldór taldi upplýsingarnar ekki verðmyndandi

Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, gaf símaskýrslu frá Kanada við framhald aðalmeðferðar í máli Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, í morgun. Baldur er ákærður fyrir innherjasvik og honum gefið að sök að hafa hagnýtt sér upplýsingar sem hann bjó yfir sem innherji þegar hann seldi öll hlutabréf sín í Landsbankanum 17. 0g 18. september 2008.

Saksóknari segir engan vafa leika á innherjastöðu Baldurs

Björn Þorvaldsson saksóknari leggur mikla áherslu á að Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, hafi búið yfir upplýsingum sem almennum hluthöfum voru ekki aðgengilegar þegar hann seldi öll hlutabréf sín í Landsbankanum dagana 17. og 18. September 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×