Handbolti

Einar: Engin barátta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Einar Jónsson, þjálfari Fram, var allt annað en ánægður með sína leikmenn eftir að liðið tapaði fyrir Val í N1-deild kvenna í dag.

Valur hafði mikla yfirburði og vann átta marka sigur, 31-23. Þar með tryggði liðið sér deildarmeistaratitilinn en Fram varð í síðasta mánuði bikarmeistari eftir sigur á Val í úrslitaleiknum.

„Nei, ég get ekki skýrt hvað gerðist í fljótu bragði,“ sagði Einar.

„Mér fannst undirbúningurinn fyrir leikinn ekki vera nógu góður og á ég minn þátt í því.“

„En mér fannst leikmenn ekki tilbúnir í leikinn eins og sést á tölunum. Það vantaði alla baráttu í liðið.“

„Við vorum vissulega lélegar en Valur var að spila mjög vel. Það er erfitt að eiga við þær á svona degi.“

Hann vill ekki fela sig á bak við það að Valsmenn hafi verið hungraðri í sigurinn í dag eftir tapið í bikarúrslitunum.

„Það er mjög auðvelt að fela sig á bak við það en það var bikar hér undir í dag - stór bikar. Auðvitað langaði okkur til að vinna þetta en við sýndum það ekki inn á vellinum í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×