Handbolti

Valur deildarmeistari kvenna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Valur varð í dag deildarmeistari kvenna í handbolta eftir öruggan sigur á Fram, 31-23, í næstsíðustu umferð deildarinnar.

Valur er nú með tveggja stiga forystu á Fram á toppi deildarinnar þegar ein umferð er eftir en þar sem liðið hefur unnið báða innbyrðisleiki liðanna í vetur eru Valsmenn öruggir með efsta sætið og þar með deildarmeistaratitilinn.

Fram byrjaði ágætlega í leiknum og hafði yfir, 4-3, þegar um tíu mínútur voru búnar af leiknum. En þá kom ekki mark í rúmar tíu mínútur og Valsmenn komust mest sex mörkum yfir í fyrri hálfleiknum.

Staðan í hálfleik var 14-9, Val í vil. Ekki tókst Fram að snúa leiknum sér í hag í seinni hálfleik heldur gáfu Valsmenn hressilega í og komust mest ellefu mörkum yfir.

Markverðirnir báðir áttu flottan leik í dag en mestu munaði um varnarleik Vals sem var glæsilegur í dag. Sóknarleikurinn kom svo með í kjölfarið og eftirleikurinn reyndist auðveldur.

Þar með hefndi Valur fyrir tapið í bikarúrslitunum en Fram fær líklega aftur tækifæri í úrslitakeppninni til að hefna til baka og vinna stóra titilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×