Innlent

Stjórnarmaður segir að Ragnar fari úr Framtakssjóðnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ragnar Önundarson er varaformaður stjórnar Framtakssjóðs Íslands.
Ragnar Önundarson er varaformaður stjórnar Framtakssjóðs Íslands.
„Það er minn skilningur að hann hafi ætlað að hætta í báðum stjórnunum," segir Ásta Rut Jónasdóttir, stjórnarmaður í VR og Lífeyrissjóði verslunarmanna, um stöðu Ragnars Önundarsonar.

Ragnar tilkynnti stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna í dag að hann hyggðist segja sig úr stjórn lífeyrissjóðsins. Hann sagði svo í samtali við fréttastofu síðar í dag að framtíð hans hjá Framtakssjóði Íslands, þar sem hann situr í stjórn í umboði stjórnar LV, væri háð vilja annarra í stjórn LV.

Ragnar var framkvæmdarstjóri Kreditkorta hf., árið 2005, þegar samkeppniseftirlitið hóf rannsókn á ólögmætu samráði fryritækisins, Greiðslumiðlunar og Fjölgreiðslumiðlunar gegn nýjum keppinauti á markaðnum. Rannsókninni lauk með sátt í ársbyrjun 2008, gegn 735 milljóna króna stjórnvaldssekt fyrirtækjanna þriggja. Í Kastljósi gærkvöldsins voru birt ný gögn í málinu, meðal annars tölvupóstssamskipti Ragnars og fleiri aðila.

Vísir hafði samband við Ágúst Einarsson, stjórnarformann Framtakssjóðs Íslands, í dag. Hann sagði að þar sem Ragnar sæti í umboði stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna væri það ekki hans að tjá sig um stöðu Ragnars.

Ásta Rut er eini stjórnarmaðurinn í Lífeyrissjóði verslunarmanna sem jafnframt á sæti í stjórn VR. Fréttavefur DV vísar í tölvupóst hennar til stjórnar VR í dag, eftir fund í stjórn lífeyrissjóðsins. Þar segir hún að stjórnarfundurinn hafi verið með hefðbundnu sniði.


Tengdar fréttir

Framtíð Ragnars hjá Framtakssjóðnum óráðin

Engin ákvörðun hefur verið tekin um framhald á störfum Ragnars Önundarsonar, fyrir Framtakssjóð Íslands. Ragnar er varaformaður í stjórn Framtakssjóðsins og situr þar fyrir hönd stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Ragnar hefur einnig gegnt stöðu varaformanns Lífeyrissjóðs verslunarmanna en tilkynnti í dag að hann myndi láta af því embætti.

Ragnar Önundarson segir sig úr stjórn LV

Ragnar Önundarson ætlar að segja sig úr stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV). Þetta kemur fram í bréfi sem hann hefur sent stjórninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×