Innlent

Sakaður um morð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu manns sem stefndi ríkinu fyrir ólögmæta frelsissviptingu og gæsluvarðhald sem hann sætti vegna morðs sem hann var á tímabili grunaður um að hafa framið.

Málavextir eru þeir að í september 2008 fannst karlmaður látinn í íbúð sinni að Skúlagötu. Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að hinn grunaði hafði, ásamt öðrum manni setið að drykkju með manninum sem lést í íbúð hans að Skúlagötu í Reykjavík frá því tveimur dögum áður en hann fannst látinn. Upphaflega var málið rannsakað sem manndráp af ásetningi en síðar var það rannsakað sem stórfelld líkamsárás sem leiddi til dauða. Við rannsókn málsins fann lögreglan blóðuga peysu sem karlmaðurinn var í skömmu eftir að félagi hans lést. Við DNA rannsókn kom í ljós að í peysunni var bæði blóð af hinum látna og þeim sem grunaður var um morðið. Maðurinn var því handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Engu að síður var send út tilkynning, í lok mars árið 2009, um að málið væri fellt niður vegna þess að ekki þóttu líkur til þess að sakfellt yrði í málinu. Maðurinn fór því fram á bætur vegna handtökunnar og frelsissviptingarinnar. Íslenska ríkið hafnaði kröfunni á þeirri forsendu að hún væri fyrnd þegar hún var fram komin. Slíkar kröfur fyrndust á sex mánuðum.

Maðurinn sem grunaður var um morðið hélt því hins vegar fram að sér hafi aldrei borist tilkynning um að málið hafi verið látið niður falla. Það hafi ekki verið fyrr en í lok janúar 2010 að hann gerði sér grein fyrir því.

Héraðsdómi þótti að sýnt hefði verið fram á að verjandi mannsins hefði fengið tilkynningu um að málið hefði verið látið niður falla og sýknaði því íslenska ríkið af bótakröfu.

Enn þann dag í dag hefur enginn verið dæmdur fyrir morðið á Skúlagötunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×