Innlent

Jón Gnarr tekur vandræðum Wire-leikara með ró

Leikkona úr þáttunum The Wire hefur verið handtekin fyrir eiturlyfjamisferli. Leikkonan var meðal þeirra sem handteknir voru í tilraun lögreglunnar í Baltimore til að uppræta eitt stærsta eiturlyfjagengið í fylkinu.

Þættirnir The Wire, sem Jón Gnarr borgarstjóri hefur dásamað, þykja sýna á raunsannan hátt líf fíkniefnasala í miðborg Baltimore.  Margir leikaranna voru valdir beint af götunni og meðal þeirra var Felicia „Snoop“ Pearson, sem lék kaldrifjaðan morðingja á vegum eiturlyfjahrings. Felicia þótti mjög sannfærandi í hlutverki sínu, og nú hefur komið í ljós að persóna hennar í þáttunum var kannski ekki svo ólík persónu Feliciu sjálfrar.

Jón Gnarr segir ekki koma sér mikið á óvart að heyra að Felicia hafi runnið af beinu brautinni, en þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Felicia kemst í kast við lögin. Einungis 14 ára var hún dæmd í sjö ára fangelsi fyrir skotárás þar sem stúlka lét lífið. Felicia hefur haldið því fram að skrautleg fortíð hennar hafi verið nauðsynleg til að túlka hlutverkið í þáttunum.

„Það er vísvitandi gert hjá framleiðendum þáttanna að hafa fólk sem samsvarar sér í útliti við þá persónu sem það á að túlka. Markmiðið er að gera þættina eins áhrifamikla og raunsæa og mögulegt er.“ Jón nefnir sem dæmi Michael K. Williams,  sem leikur Omar Little, en hann er með stórt ör þvert yfir andlitið. „Þetta er ekkert gervi, heldur fékk hann þetta ör eftir líkamsárás þegar hann var 25 ára.“

Jón bendir líka á að einn aðalhöfunda þáttanna starfaði áður hjá lögreglunni í Baltimore. Felicia talaði oft um í viðtölum að hún hefði mikla samsvörun við persónuna Snoop í þáttunum. Jón telur þó ekki að hún sé eins kaldrifjuð í raunveruleikanum. „Af viðtölum við hana að dæma þá virkar hún geðþekk, ólíkt Snoop, þó vissuleg sé mikill sjarmi yfir persónunni Snoop í þáttunum.“

Jón segir þetta raunsæi vera meðal annars það sem heillar hann við þættina. „Sem áhugamaður um sjónvarpsþáttagerð finnst mér sjónvarpið með þáttunum The Wire ná þeirri listrænu mistík sem er í bókmenntum. Þetta er eins og að lesa góða bók.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×