Innlent

Mottumars: Búið að safna á áttundu milljón

„Aðsóknin hefur verið hreint ótrúleg og fyrstu vikuna komu um 100 þúsund manns  inn á síðuna. Frá upphafi átaksins í ár hefur síðunni verið flett yfir 1,5 milljón sinnum, enda skemmtilegt að vafra um síðuna og skoða myndir af hressum mottuköppum," segir Laila Sæunn Pétursdóttir, markaðsstjóri Krabbameinsfélags Íslands, í tilkynningu.

Hún segir að mikill og skemmtilegur keppnisandi sé á mottuvefnum en tæplega sjö og hálf milljón króna hafa safnast í áheitum og fer vefurinn enn hraðar af stað í fyrra. „Við viljum minna menn á að það er ekki of seint að skrá sig til leiks og skorum sérstaklega á hressa hópa og öflug fyrirtæki að sameinast í liðakeppninni  því keppnin stendur alveg til 31. mars."

Laila Sæunn bætir við að málefnið gæti ekki verið betra en fyrir söfnunina í fyrra var unnt að ráða sérstakan ráðgjafa fyrir karlmenn á Ráðgjafarstöð Krabbameinsfélagsins auk þess sem miklu var varið í forvarnir og fræðslu.

„Þegar við settum vefinn í loftið í fyrra gerðum við okkur ekki í hugarlund hversu vinsæll hann yrði en í ár erum við vel undirbúin og höfum gert ýmsar endurbætur, svo sem að auka fjölda mynda sem hægt er að setja inn og opna á möguleikann fyrir svæðiskeppnir. Ef miðað er við samræmda vefmælingu Modernus myndi vefurinn nú skila sér í 12. sæti hvað vinsældir varða og það verður að teljast nokkuð gott fyrir vef af þessu tagi," segir Laila Sæunn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×