Handbolti

Brynja: Vonbrigði af missa af úrslitakeppninni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brynja Magnúsdóttir, leikstjórnandi HK og markahæsti leikmaður N1-deildar kvenna, var í dag valinn í úrvalslið deildarinnar fyrir síðari hluta tímabilsins.

HK kom mörgum á óvart þegar að liðið sló út Stjörnuna í fjórðungsúrslitum Eimskipsbikarkeppni kvenna og liðið vann svo Stjörnuna öðru sinni, nú í Garðabænum, í deildarleik nokkrum vikum síðar.

HK vann svo Fylki, 21-20, í næstsíðustu umferð deildarkeppninnar og átti góðan möguleika á sæti í úrslitakeppninni en allt kom fyrir ekki. HK vann sinn leik í lokaumferðinni en þurfti að treysta á að Fylkir myndi tapa fyrir Stjörnunni á sama tíma.

Fylkir náði hins vegar jafntefli gegn Garðbæingum og tryggði sér þar með síðasta sætið í úrslitakeppninni.

„Við áttum nokkuð erfitt uppdráttar í upphafi tímabils en það gekk betur hjá okkur eftir áramót,“ sagði Brynja en hér fyrir ofan má sjá viðtalið við hana í heild sinni.

„Það sem stendur upp úr voru sigrarnir báðir gegn Stjörnunni og jafnvel leikurinn gegn Fylki líka. Þeir sýndu að við höfum verið að bæta okkur.“

Hún segir þó að það hafi verið mikil vonbrigði að hafa ekki komist í úrslitakeppnina. „Gífurlega. Ég held að ég hafi aldrei orðið fyrir jafn miklum vonbrigðum þegar ég leit upp í stúkuna og sá alla hvíta í framan.“

„Ég held að þetta gefi þó góð fyrirheit fyrir næsta tímabil. Þetta er skemmtilegur hópur og það er mjög gaman hjá okkur á æfingum. Mér sjálfri hefur gengið vel og ég náði að komast í gott form eftir að hafa verið meidd í fyrra.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×