Viðskipti erlent

Danskur einstaklingur á að baki 101 gjaldþrot

Danskur einstaklingur á að baki 101 gjaldþrot í Danmörku á síðustu tíu árum. Þrjár persónur hafa hver um sig á undanförnum tíu árum verið stjórnendur í tæplega 40 félögum/fyrirtækjum sem orðið hafa gjaldþrota í Danmörku. Tæplega 430 persónur hafa hver um sig verið stjórnendur eða forstjórar í fimm félögum sem orðið hafa gjaldþrota á síðustu tíu árum.

Þetta kemur fram í nýrri úttekt sem gjaldþrotanefnd Danmerkur (Konkursrådet) hefur gert opinbera og sagt er frá í Jyllands Posten. Þar segir að fjöldi þeirra Dana sem fá leyfi til að verða gjaldþrota mörgum sinnum sé alltof hár. Einnig sé kostnaðurinn of hár en fram kemur í úttektinni að frá árinu 2008 hafi 40 gjaldþrotariddarar kostað danska skattinn um 700 milljónir danskra kr., eða um 14 milljarða kr., í töpuðum skatttekjum.

Konkursrådet vill breytingar á gjaldþrotalöggjöf landsins þannig að þeir sem verða gjaldþrota megi ekki stunda atvinnurekstur í þrjú ár þar á eftir. Sem stendur geta þeir byrjað að nýju daginn eftir að verða gjaldþrota.

Samhliða segir Konkursrådet að nauðsynlegt sé að rannsaka ítarlega um tíunda hvert gjaldþrot í Danmörku til að finna út hvort stjórn viðkomandi félags/fyrirtækis eigi að fá framangreint þriggja ára bann. Slíkt myndi þýða um 250 dómsmál á hverju ári.  Hinsvegar hefði slíkur framgangsmáti sparað danska skattinum fyrrgreinda 14 milljarða á tímabilinu 2008 og fram til síðustu áramóta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×