Innlent

Sóley: Fyrirfram ákveðin niðurstaða

Sóley telur að Oddný Sturludóttir og Eva Einarsdóttir, formenn menntaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs, séu þegar búnar að ákveða niðurstöðuna, þrátt fyrir að sameiningartillögurnar séu enn í sameiningarferli
Sóley telur að Oddný Sturludóttir og Eva Einarsdóttir, formenn menntaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs, séu þegar búnar að ákveða niðurstöðuna, þrátt fyrir að sameiningartillögurnar séu enn í sameiningarferli
Fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks lögðu til á fundi íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar í dag að umsagnarfrestur skólaráða verði lengdur, enda virðist sem þau hafi byggt á röngum upplýsingum frá formönnum menntaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs. Þetta segir Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna.

Tillögunni var frestað en farið hefur verið fram á aukafund í ráðinu til að klára málið sem fyrst.

Sóley segir að þrátt fyrir að sameiningartillögur meirihluta Besta flokks og Samfylkingar séu enn í umsagnarferli, og sérstakur starfshópur skoði nú hvort og þá með hvaða hætti best væri að sameina yfirstjórnir grunnskóla og frístundaheimila virðist Oddný Sturludóttir og Eva Einarsdóttir, formenn menntaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs vera búnar að ákveða niðurstöðuna.

„Í tölvupósti frá þeim stöllum til Félags skólastjórnenda í Reykjavík, sem jafnframt var sendur skólaráðum grunnskólanna fullyrða þær að skólastjórar muni verða óyggjandi yfirmenn sameinaðra grunnskóla og frístundaheimila, en að starfshópurinn óski eftir að umsjónarmaður frístundaheimilisins verði hluti af stjórn skólans, til dæmis deildarstjóri frístundarstarfs,“ segir Sóley.

Hún segir að formennirnir hafi engar heimildir til að túlka vilja eða sýn starfshóps sem enn er að störfum og hefur engar ákvarðanir tekið. Því sé nauðsynlegt að þessi skilaboð verði afturkölluð með skýrum hætti gagnvart skólastjórnendum. Jafnframt telur hún er nauðsynlegt að lengja umsagnarfrest skólaráðanna svo þeim gefist kostur á að endurskoða umsagnir sínar með tilliti til þessara rangfærslna.

„Þessi vinnubrögð eru enn eitt dæmið um skeytingarleysið sem meirihlutinn sýnir lýðræðinu, starfsfólki borgarinnar og íbúum. Ákvarðanirnar hafa fyrir löngu verið teknar og greinilegt að enginn af öllum heimsins starfshópum eða umsögnum kemur til með að breyta þeim. Slík vinnubrögð eru meirihlutanum til skammar,“ segir Sóley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×