Innlent

Vika eftir af Mottumars: 20 milljónir komnar

Þessir fríðu piltar eru meðal þeirra fjölmörgu sem söfnuðu mottu til að styrkja gott málefni
Þessir fríðu piltar eru meðal þeirra fjölmörgu sem söfnuðu mottu til að styrkja gott málefni
Rúmar 20 milljónir króna hafa safnast í árvekniátaki Krabbameinsfélags Íslands, Mottumars. Tæp vika er nú eftir af átakinu.

Um 1.800 einstaklingar og 400 lið hafa skráð sig til leiks.

Lið Byko er nú í efsta sæti í liðakeppninni en í  einstaklingskeppninni er það Magnús Guðmundsson, sem lést úr krabbameini fyrr í mánuðinum.

Flottasta mottan valin

Baráttan við krabbamein getur skilað miklum árangri og biðlar Krabbameinsfélagið því til allra Íslendinga um að taka þátt í söfnun áheita á mottumars.is og leggja sitt af mörkum. Fjármunir sem safnast í átakinu verða notaðir í fræðslu, forvarnir, rannsóknir og ráðgjöf sem tengist baráttunni við krabbamein hjá karlmönnum.

Keppninni lýkur þann 31. mars en þá verða þeir sem safnað hafa mestum áheitum, bæði einstaklingar og lið,  verðlaunaðir og hljóta titilinn Mottan 2011.

Fagfélag rakarameistara mun velja flottustu mottuna og fer fljótlega í gegnum myndirnar á mottumars.is

svo nú er um að gera að setja inn nýjustu myndirnar!

Afsláttur fyrir þá sem skarta mottu

Á morgun, laugardag, verða haldnir tónleikar á Sódómu til styrktar átakinu.

Allur ágóði rennur óskiptur til Krabbameinsfélagsins og allir þeir sem koma að tónleikunum gefa vinnu sína. Það kostar 1.500 krónur inn á tónleikana, en húsið opnar kl. 21:30, en þeir sem skarta mottu fá að sjálfsögðu veglegan afslátt og kostar miðinn þá einungis 1.000 krónur.

Eftirfarandi listamenn koma fram:

Böddi úr Dalton

Morgan Kane

Morning after youth

Noise

The Vintage caravan

Endless Dark

Finnegan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×