Innlent

Segir son sinn ekki hafa kastað snjóboltum - drengurinn sér tvöfalt

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður.
„Ég vona bara að drengurinn jafni sig á þessu,“ segir faðir drengsins sem fékk heilahristing eftir að karlmaður á fimmtugsaldri elti hann uppi og veitti honum höfuðhögg í Hafnarfirði á miðvikudaginn.

Eins og Vísir greindi frá í dag þá sakaði maðurinn þrjá tólf ára drengi um að kasta snjóboltum í rúðuna sína í fjölbýlishúsi þar sem hann býr. Sakaði hann drengina um að hafa stundað það að kasta snjóboltunum í gluggann síðustu þrjá daga.

Drengirnir könnuðust ekki við að hafa kasta þessum snjóboltum. Maðurinn brást hinn versti við þegar þeir ætluðu að fara og elti þá uppi.

Að lokum féll einn drengurinn við með þeim afleiðingum að maðurinn náði honum. Þá á hann að hafa veitt honum höfuðhöggið.

Það var vegfarandi sem kom drengnum til bjargar. Meinti árásamaðurinn flúði þá af vettvangi. Einnig var par á bíl nærri sem varð vitni að árásinni.

Að sögn föður drengsins þá sá pilturinn tvöfalt eftir höfuðhöggið. Í kjölfarið var hann sendur í heilaröntgen þar sem í ljós kom að drengurinn var með slæman heilahristing.

Drengjunum er brugðið eftir árásina, „ég hef ekki séð drenginn minn svona áður,“ segir faðir hans. Þá er það þungbært fyrir drengina að hafa manninn í hverfinu að sögn föður drengsins, en þeir þurfa að ganga framhjá húsinu til þess að komast í skólann.

Drengirnir hafa hinsvegar ekki mætt í skólann síðan atvikið varð. Lögreglan rannsakar málið.


Tengdar fréttir

Segir drenginn hafa fengið heilahristing eftir árásina

Tólf ára drengur sem á að hafa orðið fyrir árás karlmanns á fimmtugsaldri í Hafnarfirði á miðvikudaginn, hlaut heilahristing við aðförina samkvæmt móðir eins piltanna sem var með honum í för.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×