Innlent

SAMFOK: Fagleg rök skortir hjá borginni

Mynd úr safni
SAMFOK leggur til að horfið verði frá áformum um sameiningar, samrekstur og aðrar breytingar að sinni. SAMFOK telur að mjög skorti á að fullnægjandi fagleg og fjárhagsleg rök styðji tillögurnar eins og viðmið starfshópsins kváðu á um.  Auk þess sem verulegur skortur á samráði og upplýsingagjöf skilji eftir of mörg spurningarmerki og of mikla andstöðu hagsmunaaðila til að búast megi við farsælli niðurstöðu að svo stöddu.  

Þetta segir í umsögn stjórnar SAMFOK um skýrslu starfshóps um greiningu  tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila.

SAMFOK telur að rök fyrir þeim breytingatillögum sem lagðar hafa verið fram séu af svo skornum skammti og rannsóknarvinna ekki nægileg til þess að unnt sé að keyra tillögurnar í gegn á þeim hraða sem fyrirhugað er. Gera þarf faglega úttekt á tillögunum og reikna mögulegan sparnað eða hagræðingu út af mun meiri nákvæmni.  

SAMFOK telur ekki að skýrslan sýni fram á slíkan ávinning að verjandi sé að raska skólastarfi með svo afgerandi hætti á þessum tímapunkti. Mun lengri undirbúningstíma þarf til og náið samtal og samráð við þá sem breytingarnar snertir. Sameiningar skila sjaldnast hagnaði á fyrsta ári og SAMFOK telur að  með því að fresta þessum aðgerðum og undirbúa þær betur í nánu samstarfi við foreldra og starfsfólk skóla náist betri árangur og meiri fjárhagslegur ávinningur.

Umsögn SAMFOK er í heild sinni á vef Reykjavíkurborgar og einnig umsagnir annarra hagsmunaðila. Smellið hér til að sjá þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×