Körfubolti

Kjartan: Í þessu til að hitta úr stóru skotunum

Henry Birgir Gunnarsson í Röstinni skrifar
Stjörnumaðurinn Kjartan Atli Kjartansson átti ansi stóran þátt í sigri sinna manna í Röstinni í kvöld. Hann setti niður rosalegan þrist þegar öðrum leikmönnum virtist fyrirmunað að skora.

Þessi þrjú stig skiptu öllu máli því Grindavík náði ekki að jafna eftir það.

"Þetta var stórt skot og maður er í þessu til þess að hitta úr þessum stóru skotum. Þegar maður er svona opinn þá skýtur maður," sagði Kjartan brosmildur en Teitur þjálfari hefði líklega tekið hann í gegn ef hann hefði klúðrað skotinu.

"Hann var eitthvað að ljúga því að honum liði betur þegar ég tók skotið en það er algert kjaftæði. Ég gat gefið boltann þarna en ég vildi fá pepp fyrir sjálfan mig þannig að ég ákvað að taka skotið."

Kjartan Atli segir að Stjörnumönnum líði vel á útivelli því þá mæti áhorfendur betur en á heimaleikjum liðsins.

"Það var gaman að sjá hvað komu margir úr Garðabænum. Ég hef sagt það áður að okkur þyki betra að spila á útivelli og Garðbæingar mega taka það til sín. Það eru rútur á útileikina og þá eru allir mættir á réttum tíma. Á heimavelli eru allir að borða samlokur eða Stjörnuborgara þegar leikurinn byrjar. Það var frábært að fá þennan stuðning frá upphafi og áhorfendur skiptu rosalegu máli í kvöld."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×