Innlent

Tuttugu þúsund miðar seldir í Hörpuna

Tölvuteikning af aðalsal Hörpunnar.
Tölvuteikning af aðalsal Hörpunnar.
Tuttugu þúsund manns hafa nú þegar tryggt sér miða á listviðburði í Hörpu. Miðar á suma viðburði seldust upp á innan við klukkutíma. Aðeins sex vikur eru þar til að húsið opnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá tónlistarhúsinu. Þar segir að eftirspurn eftir miðum á listviðburði í Hörpu hafi farið fram úr björtustu vonum. Uppselt sé á þrenna opnunartónleika Sinfoníuhljómsveitarinnar undir stjórn Vladimir Ashkenazy. Örfáir miðar séu eftir á tónleika stórtenórsins Jonas Kaufmann sem kemur hingað til lands á vegum Listahátíðar í Reykjavík.

Listahátíð í Reykjavík mun kynna næstu viðburði sína í Hörpu þann 1. apríl næstkomandi. Sala á fleiri tónleika fer af stað á næstunni. Nefna má tónleika til heiðurs Bob Dylan þar sem valinkunnir íslenskir tónlistarmenn koma fram, en sala á þá hefst 1.apríl.

„Rétt er að taka fram að sjálf opnunarhátíð Hörpunnar verður haldin 13. maí næstkomandi og munu í kringum 400 íslenskir listamenn taka þátt í henni auk fjölda erlendra listamanna. Fyrirkomulagið á því hvernig þeim miðum verður ráðstafað verður kynnt fljótlega. Opnunarhátíðin verður í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu og til tónlistarunnenda víða um heim í gegnum netið,“ segir ennfremur í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×