Innlent

Sextán ára dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn börnum

Akureyri.
Akureyri.
Piltur á tvítugsaldri var dæmdur í dag fyrir kynferðisbrot gegn tveimur stúlkum sem voru sjö og átta ára gamlar þegar brotin voru framin. Pilturinn játaði brot sín skýlaust fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra en hann káfaði meðal annars á stúlkunum og bað þær um að snerta kynfæri sín.

Brotin áttu sér stað árin 2009 og 2010 og voru þau framin á Akureyri og nágrenni.

Í dómnum kemur fram að pilturinn hafi aðeins verið sextán ára gamall þegar brotin voru framin. Hann hefur leitað sér sálfræðiaðstoðar.

Hefur hann til þessa farið í sautján viðtöl hjá sálfræðingi, en fyrir dómi var því lýst að markmið meðferðarinnar væri að vinna með kynferðislega, persónulega og félagslega þætti er tengdust brotum piltsins.

Sálfræðimeðferðinni er enn ekki lokið, en áætlað er að það verði nú í sumar, eftir það verður um eftirfylgni að ræða í allt að eitt ár. Pilturinn lýsti yfir iðrun sinni fyrir dómi og vilja til þess að ljúka meðferðinni.

Í ljósi ungs aldurs piltsins, og að hann sé að leita sér hjálpar, þótti ástæða til þess að skilorðsbinda dóminn til þriggja ára. Hann mun þó þurfa að sæta sérstakri umsjón tilsjónarmanns, sem Fangelsismálastofnun ríkisins mun útnefna þau þrjú ár sem hann er á skilorði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×