Innlent

Ritlist í HÍ kennd á meistarastigi

Frá og með haustinu 2011 verður ritlist kennd á meistarastigi við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Um er að ræða tveggja ára nám sem lýkur með MA-gráðu. Öllum sem hafa lokið einhvers konar grunnnámi frá háskóla gefst kostur á að sækja um inngöngu, líka þeim sem ekki hafa próf af Hugvísindasviði.

Í tilkynningu segir að valið verður inn í námið á grundvelli innsendra ritsmíða og verða teknir inn allt að 25 nemendur á hverju hausti. Umsóknarfrestur er til 15. apríl.

„Með þessu fyrirkomulagi verður hægt að sinna nemendum mun betur en verið hefur og veita þeim þá einstaklingsmiðuðu leiðsögn sem listnám af þessu tagi krefst. Jafnframt verður hægt að bjóða ritlistarnemum að sækja námskeið í skyldum greinum á meistarastigi, s.s. í þýðingafræði, blaðamennsku, hagnýtri ritstjórn og útgáfu og hagnýtri menningu og miðlun. Námið felst annars vegar í verklegum smiðjuáföngum og hins vegar í bókmenntaáföngum,“ segir í tilkynningunni.

Ennfremur segir að ritlist hafi verið í boði sem aukagrein frá 2002 og sem aðalgrein til BA-prófs frá 2008. Mikil aðsókn hefur verið að náminu undanfarin ár og sl. haust var ekki unnt að taka inn nýnema af þeim sökum. Stök ritlistarnámskeið verða áfram í boði á BA-stigi og stefnt er að því að ritlist verði í boði sem aukagrein í framtíðinni.

Ritlistarnemar eru þegar farnir að láta talsvert til sín taka í bókmenntalífi þjóðarinnar. Þeir hafa gefið út tvö safnrit á undanförnum árum, stofnað tímarit, sent frá sér ljóðabækur og hreppt Nýræktarstyrki Bókmenntasjóðs, svo dæmi séu tekin. Þá hefur ritlist staðið fyrir hádegisfyrirlestrum undir yfirskriftinni „Hvernig verður bók til?" og hafa þeir vakið athygli og verið fjölsóttir.

Rúnar Helgi Vignisson, rithöfundur og þýðandi, hefur yfirumsjón með ritlistarnámi við Háskóla Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×