Innlent

Áfengissjúklingar ná tökum á lífinu með bættu mataræði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sólveig Eiríksdóttir hefur langa reynslu af því að hjálpa fólki með mataræði. Mynd/ GVA.
Sólveig Eiríksdóttir hefur langa reynslu af því að hjálpa fólki með mataræði. Mynd/ GVA.
Það getur hjálpað fólki sem er í bata eftir áfengis- eða fíkniefnaneyslu að ná tökum á mataræði sínu. „Ég trúi að það geti gert það," segir Sólveig Eiríksdóttir á veitingastaðnum Gló. Sólveig hefur veitt ráðgjöf um mataræði í um árabil. Hún ætlar að lýsa sjónarmiðum sínum varðandi samspil áfengis- og vímuefnafíknar og mataræðis á fundi hjá SÁÁ annað kvöld.

„Reynslan hefur sýnt að það hafa margir þá sögu að segja að það að breyta um mataræði, að fara í heilbrigðara og betra mataræði, að þá er eins og það komist meira jafnvægi á," segir Sólveig. Hún segir að efni á borð við áfengi og tóbak hafi mjög útvíkkandi áhrif. Þeir sem ánetjist þessum efnum eigi það til að ánetjast líka mjög mikið sælgæti og kaffi svo dæmi sé nefnt.

Solla segir að skoðanir sínar séu byggðar á reynslu sinni af því að hjálpa fólki með mataræði sitt. Þær byggi hins vegar ekki á vísindalegum athugunum og því vilji hún ekki alhæfa neitt. En hún minnist vísindarannsóknar sem hún las í gamalli blaðaúrklippu úr Vísi. „Þá voru vandræðapiltar í Bretlandi dæmdir til að borða hollan mat, á unglingafangelsi, upptökuheimili eða eitthvað því um líkt. Þá var gerð rannsókn á þessu sem sýndi að þeir sem fóru yfir á þetta bætta mataræði voru mikið líklegri til að snúa baki við fyrra líferni og taka aftur upp heilbrigt líf,“ segir Solla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×